Íslenski boltinn

Umfjöllun og einkunnir: Víkingur Ólafsvík - Þór 1-1 | Jafntefli hjá nýliðunum

Kári Viðarsson á Ólafsvíkurvelli skrifar
Tíu Víkingar héldu jöfnu gegn Þórsurum í nýliðaslag í Ólafsvík í 15. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Lokatölurnar urðu 1-1.

Heimamenn komust yfir með skrautlegu marki Guðmundar Steins Hafsteinssonar en gestirnir náðu að jafna í byrjun síðari hálfleiks þegar hinn pollrólegi Mark Tubæk setti boltann snyrtilega í netið.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og pressuðu Þórsara hátt uppi á vellinum. Þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum skilaði pressan árangri. Þá sendi Mark Tubæk glórulausa sendingu aftur á Joshua Wicks í marki Þórsara. Í stað þess að skalla knöttinn yfir markið ákvað hann að skalla hann út í teiginn. Ekki vildi betur til en svo að Wicks flæktist í eigin marki við þessa takta og Guðmundur Steinn Hafsteinsson nýtti sér þau mistök með því að skalla boltann í net Þórsara. Staðan 1-0 og stúkan í hláturskasti.

Leikurinn tók nýja stefnu á 39. mínútu þegar Guðmundi Steini, markaskorara Víkings, var vikið af velli eftir samstuð við Inga Frey Hilmarsson. Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, gaf Guðmundi umsvifalaust beint rautt spjald og það ætlaði allt um koll að keyra. Þórsarar reyndu árangurslaust að jafna fyrir hálfleik en ekkert gekk og staðan því 1-0 fyrir heimamenn.

Í síðari hálfleik bökkuðu heimamenn og freistuðu þess að halda forystunni. Þetta bauð hættunni heim og endaði með því að Þórsarar jöfnuðu leikinn. Mark Tubæk fékk þá góða sendingu inn í teiginn, tók tvo menn á og lagði knöttinn snyrtilega framhjá Einari í marki Víkinga.

Síðasti hálftíminn einkenndist fyrst og fremst af baráttu og miðjumoði. Hvorugt liðið náði að skapa sér dauðafæri og vart mátti sjá að Heimamenn væru manni færri. Niðurstaðan 1-1 jafntefli og Þórsarar hljóta að vera vonsviknir með að ná ekki að nýta sér liðsmuninn betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×