Innlent

"Manstu eftir mér?“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Þau kynntust fyrir rúmum þrjátíu árum og nú vill dönsk kona finna gamlan íslenskan vin sinn aftur. Eigi hann konu í dag þarf hún ekkert að hafa áhyggjur þar sem að einungis er um vinskap að ræða.

Tea Isaksen er 55 ára gömul, fædd í Qaqortoq á Grænlandi, en búsett í Óðinsvé í Danmörku. Á árunum 1980-1982 kynntist hún ungum íslenskum manni, Sigurði að nafni og tókst með þeim mikill vinskapur. Vinkona Teu birti á Facebook síðu sinni, fyrir helgi, færslu þar sem hún auglýsir eftir Sigurði fyrir vinkonu sína. Íslendingar voru fljótir til, eins og þeim er einum lagið og hafa um þúsund manns deilt leitinni. Sigurður þessi sem Teu minnir að sé Sigurðsson var á svipuðum aldri og hún, frá litlum bæ á norðulandi en á þessum tíma var hann við nám í rafmagnsverkfræði í háskóla í Óðinsvé. En hvernig leit þessi Sigurður út? „Hann var með skollitað krullað hár og ekki mjög hávaxinn, segir Tea“.

Tea lýsir þessum gamla vin sem blíðum, góðum og rólegum manni sem spilaði fyrir hana mikið af tónlist. Ástæða þess að hún vill hafa uppi á honum er sú að hún var að hlusta á lagið Turn Your Lights Down Low með Bob Marley um daginn og segir Sigurð hafa verið þann fyrsta sem sem lét hana hlusta á það lag.

Eigi Sigurður konu í dag þarf hún ekkert að hafa áhyggjur. Tea er ekki ástfangin af honum og hefur það alls ekki í huga að reyna að stela Sigurði frá sinni konu.

En hvað yrði það fyrsta sem að Tea myndi segja við gamlan og góðan vin? „Manstu eftir mér?“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×