Innlent

Kom við á Íslandi á leið sinni í kringum hnöttinn

Þórhildur Þorkelsóttir skrifar
Ryan Campbell ásamt vél sinni á Íslandi.
Ryan Campbell ásamt vél sinni á Íslandi.
Ástralskur maður, sem stefnir að því að verða yngsti flugmaður sögunnar til að fljúga hringinn í kringum hnöttinn einsamall, kom til Íslands um helgina. Flugmaðurinn heitir Ryan Campbell og er nítján ára. Hann lagði af stað 30. júní síðastliðinn og stefnir á að klára leiðangurinn 7. september.

Í viðtali við vefsíðuna Illawarramercury.com segist ungi ofurhuginn vera hæstánægður með komuna til Íslands, en lending hans hér á landi markaði miðbik ferðar hans um heiminn.  „Ég er mjög feginn að vera kominn hálfa leið,“ sagði Campbell, sem flaug 1334 sjómílna leið yfir Norður - Atlantshafið frá Kanada til Reykjavíkur. Ferðin tók hann níu klukkutíma.

Campbell naut dvalarinnar á Íslandi og sagðist hafa gengið um miðbæ Reykjavíkur á laugardaginn. Þá furðaði hann sig á því að hér væri enn dagsbirta klukkan tíu um kvöld. Hann lagði svo aftur í hann í gær, en næsti áfangastaður er Skotland. Campell segist drepa tímann um borð í vélinni með iPad spjaldtölvu og GoPro myndavél.

Campbell stefnir að því að slá met bandaríkjamannsins Jack Wiegand, en hann flaug hringinn einsamall þegar hann var 21 árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×