Innlent

"Hegðun gömlu nöldurseggjanna sýnir að hvergi má slaka á“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Anna Kristjánsdóttir segir að hvergi megi slaka á í réttindabaráttu hinsegin fólks.
Anna Kristjánsdóttir segir að hvergi megi slaka á í réttindabaráttu hinsegin fólks. mynd úr safni
Anna Kristjánsdóttir bloggari leggur orð í belg í umræðu síðustu daga um gleðigönguna, en ummæli tónlistarmannsins Gylfa Ægissonar og bloggarans Halldórs Jónssonar um gönguna hafa vakið misjöfn viðbrögð almennings.

Anna segir sögu af vini sínum sem varð fyrir fólskulegri árás lögreglumanna vegna kynhneigðar sinnar.

„Hann hét Sigurgeir og var stundum kallaður Flissfríður sem sagði heilmikið um karakterinn, enda hafði hann gaman af að leika stelpu og hann var hommi af guðsnáð í samfélagi sem hatar þá,“ skrifar Anna, en hún kynntist Sigurgeiri á árunum eftir 1980.

Hún segir sögu af því þegar Sigurgeir var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur í kvenhlutverki þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum vegna óláta.

„Er lögreglumennirnir (sem voru greinilega ráðnir fyrir daga upplýsingar um mannlegt eðli) uppgötvuðu hvers kyns var, tóku þeir drenginn inn í Svörtu Maríu og tuskuðu til að hætti þess sem valdið hefur.“

Sigurgeir lést innan við ári síðar af öðrum völdum en Anna segir hann aldrei hafa jafnað sig eftir ofbeldið sem hann var beittur.

„Hugsið ykkur. Það eru bara 27 ár síðan Sigurgeir var laminn af lögreglunni á Lindargötunni í Reykjavík,“ bætir Anna við og segir ástæðu til að minnast Sigurgeirs í dag.

„Hann var eitt af fórnarlömbum fordóma gegn samkynhneigðum og hann komst aldrei í gleðigöngu. Hann varð aldrei aðnjótandi mannréttinda sem flestum þykja eðlileg í dag en varð iðulega fyrir barðinu á ofbeldi og fordómum gamalla nöldurseggja af því tagi sem nú sjá ofbeldi í kærleika milli tveggja einstaklinga af sama kyni. Hegðun gömlu nöldurseggjanna sýnir að hvergi má slaka á. Baráttunni er ekki lokið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×