Innlent

Lovestar-hugmynd Andra Snæs verður að veruleika

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hugmynd Andra Snæs í bókinni Lovestar svipar mjög til geimsendinga fyrirtækisins Elysium Space.
Hugmynd Andra Snæs í bókinni Lovestar svipar mjög til geimsendinga fyrirtækisins Elysium Space. mynd/365
„Þetta er sama hugmynd og í skáldsögu minni Lovestar,“ segir Andri Snær Magnason, rithöfundur, um fréttir af því að nú sé hægt að senda ösku ástvina sinna út í geim þar sem henni er svo dreift um sporbaug jarðar.

Sagan hans, Lovestar kom út í Bandaríkjunum í desember á síðasta ári.

„Mér finnst eins og það sé verið að hefja aftur vinnu að hugmynd sem byrjað var á fyrir einhverju síðan. Þetta kemur fram í bókinni minni Draumalandinu, en þessi hugmynd að senda ösku manna út í geim var til, undir einhverju öðru nafni.“

„Ég held að þetta sé dæmi um samliggjandi hugmyndir. Hugmyndir sem spretta upp á ólíkum stöðum, eins og þegar fínkur ná að læra að brjóta innsigli á mjólkurflöskum samtímis á 20 stöðum í Bretlandi. Þetta er kallað „meme“, þegar hugmynd liggur einhversstaðar í loftinu og smitar fólk samtímis. Ég sem rithöfundur skrifa bók um hugmyndina, aðrir stofna fyrirtæki.“

„Í þessu tilviki er verið að senda út nokkur grömm af fólki, gallinn er að eldflaugarnar eru einnota og það er helsti kostnaðurinn. Elon Musk stofnandi Tesla Motors er að þróa margnota eldflaugar og þegar þær verða komnar, verður hægt að taka svona geimsendingar upp á það stig sem er í Lovestar, þar sem askan af manneskju í heilu lagi var send út í geim og féll síðan niður sem stjörnuhrap."

„Það er mjög gaman að skoða vefsíðu Elysium Space. Það er nánast eins og verið sé að  myndskreyta Lovestar. Ef ég hefði búið til falssíðu, til þess að fylgja þessum hugmyndum í bókinni eftir væri hún ekki ólík þessari síðu.“

„Þetta fer náttúrulega mjög illa í bókinni, þannig að við skulum vona að þetta gangi betur í raunveruleikanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×