Innlent

„Einelti hefur alltaf lifað góðu lífi í Bolungarvík“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Fjölmargir íbúar Bolungarvíkur höfðu sömu sögu að segja og faðirinn.
Fjölmargir íbúar Bolungarvíkur höfðu sömu sögu að segja og faðirinn.
„Almennt eiga börn rétt á að vera börn og foreldrar eiga að geta treyst því að í skipulögðu skóla- og íþróttastarfi sé hugsað um þau, að þau séu pössuð og andleg og líkamleg vellíðan gangi fyrir,“ segir faðir barns í Bolungarvík sem hefur orðið fyrir einelti frá upphafi skólagöngu sinnar.

„Ef börnum líður mjög illa á þessum stöðum og verða fyrir ítrekuðu einelti, andlegu eða líkamlegu, í lengri tíma, eru þeir sem bera ábyrgð á þessum málum ekki að standa sig.“

Faðirinn tjáði sig um málið á Facebook, en barnið er að byrja í þriðja bekk og deildu fjölmargir bæjarbúar svipaðri reynslu. „Einelti hefur alltaf lifað góðu lífi í Bolungarvík frá því ég man eftir mér og er enn til staðar,“ segir einn í ummælum.

Soffía Vagnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur, segir í samtali við BB.is að fólki verði eðlilega heitt í hamsi þegar eineltisumræðan kemur upp. Það minni fólk á að baráttan sé eilífðarverkefni. Einelti sé til staðar í skólanum líkt og í öllum öðrum skólum á Íslandi og í samfélaginu í heild.

„Ég vil biðla til foreldra sem eiga börn í Grunnskóla Bolungarvíkur að gefast ekki upp fyrr en þau hafa fengið áheyrn. Mál eru oft flókin og erfitt að koma auga á hlutina, en við afneitum því ekki að einelti sé hér eins og annars staðar og leggjum okkur fram um að vinna með samskipti nemenda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×