Innlent

Árás á leigubílstjóra rannsökuð sem kynferðisbrot

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Leigubílstjórinn hyggst kæra árásarmanninn
Leigubílstjórinn hyggst kæra árásarmanninn
Árás sem kvenkyns leigubílstjóri varð fyrir í nótt af ölvuðum farþega er rannsökuð sem kynferðisbrot. Það staðfestir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar í samtali við Vísi.

Málavextir voru þeir að ölvaður farþegi, sem sat í aftursæti leigubíls tók að áreita bílstjórann í akstri í Hafnarfirði um eitt leitið í nótt, sem endaði með því að hann tók hana hálstaki aftan frá. Henni tókst að stöðva bílinn, slíta sig lausa og koma sér út úr bílnum, þar sem hún hringdi á lögreglu.

Árásarmaðurinn var enn í bílnum þegar lögregla kom á vettvang, og neitaði að fara út úr honum. Þurfti því að beita hann valdi  og er hann vistaður í fangageymslum. Konuna sakaði ekki líkamlega, en var illa brugðið og ætlar að kæra árásarmanninn.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1976, er í yfirheyrslum og verður sleppt í kvöld að þeim loknum.

Tekin var skýrsla af konunni í dag og fór hún á slysavarðstofuna. Að sögn Björgvins er hún eftir sig en er að jafna sig eftir árásina.

Rannsókninni lýkur í þessari viku eða næstu og verður þá send ákærusviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×