Innlent

Pólitísk ákvörðun að vernda Norðlingaölduveitu

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ragnheiður Elín segir það hafa verið pólitíska ákvörðun tekna af Alþingi að vernda Norðlingaölduveitu.
Ragnheiður Elín segir það hafa verið pólitíska ákvörðun tekna af Alþingi að vernda Norðlingaölduveitu.
Pólitísk afskipti fyrrverandi meirihluta á Alþingi, af mati sérfræðinga sem töldu Norðlingaölduveitu góðan virkjanakost, leiddu til þess að hún er nú í verndarflokki. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

„Norðlingaölduveitan er í verndarflokki í rammaáætlun. Það var hinsvegar ekki endilega á grundvelli þeirrar vinnu sem að sérfræðingar og verkefnisstjórn rammáaætlunar vann heldur var það pólitísk ákvörðun tekin af Alþingi í krafti síðasta meirihluta."

Þetta kemur einnig fram í yfirlýsingu sem Samorka sendi frá sér á miðvikudaginn, en þar segir meðal annars: „Sérfræðingar rammaáætlunar − verkefnisstjórnin − röðuðu þessum orkukosti hins vegar fyrir ofan miðju frá sjónarhorni nýtingar, eða nr. 30 af 69 kostum. Fyrrgreind niðurstaða Alþingis varðandi þennan orkukost var því ekki á grundvelli vinnu sérfræðinga rammaáætlunar, ekki fremur en gildir raunar um marga aðra kosti. Ætla mætti að honum hefði verið raðað í nýtingarflokk, e.t.v. í biðflokk, ef Alþingi hefði fylgt niðurstöðum verkefnisstjórnar."

Ragnheiður Elín segir þó að það standi ekki til að færa eldri tillögu um virkjun í Norðlingaölduveitu á milli flokka heldur yrði lögð fram ný tillaga, í samræmi við nýjar hugmyndir Landsvirkjunar.

Það sem að nú kæmi fram væri ný tillaga þar sem tekið væri tillit til þessara sjónarmiða. Sú tillaga þyrfti þá að fara fyrir verkefnastjórnina og rammaáætlunarvinnuna og fara í gegnum umhverfismat. Það væri þá önnur tillaga og við erum ekki að tala um að færa þá tillögu sem nú er í verndarflokki á milli flokka heldur yrði ný tillaga lögð fram sem fengi alla þá meðferð sem lagaumhverfið krefur. Á grundvelli þeirrar vinnu yrði tekin ákvörðun um hvar sú tillaga myndi enda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×