Innlent

Hafnar hræðsluáróðri um áhrif laxeldis á villta stofna

Svavar Hávarðsson skrifar
Sjókvíaeldi á Vestfjörðum er vonarstjarna í atvinnumálum.
Sjókvíaeldi á Vestfjörðum er vonarstjarna í atvinnumálum.
Rannsókn á áhrifum eldislax á stofngerð náttúrulegs lax í árkerfi Elliðaáa sýnir að stofngerð villta laxins hefur tekið breytingum. Þeir sem standa að rannsókninni telja að niðurstöðurnar styðji að varast ber erfðablöndun villts lax og eldislax.

Jón Örn Pálsson, svæðisstjóri hjá laxeldisfyrirtækinu Fjarðalaxi, segir að niðurstöðurnar staðfesti ekkert um áhrif af strokulaxi úr eldiskvíum. Þvert á móti sýni rannsóknin áhrif frá hafbeitarlaxi sem villist upp í ár. Rannsóknin taki ekkert tillit til gríðarlegra seiðasleppinga í Elliðaárnar í gegnum áratugina, sem gjaldfelli rannsóknina.

Fréttablaðið greindi frá rannsókninni í gær. Niðurstaðan í hnotskurn er að erfðablöndun við eldis­lax hafi raskað stofngerð villta Elliðaárlaxins.

Orðanotkun og seiðasleppingar

Jón Örn gagnrýnir í fyrsta lagi orðanotkun um eldislax harðlega og telur það óþolandi að skilgreina uppruna hans ekki betur. „Ef menn ætla að nota þetta hugtak þá verður að skilgreina upprunann miklu betur. Talað er um áhrif lax sem alinn var í kvíum og hins vegar um hafbeitarlax. Þriðja stærðin í þessu dæmi eru seiðasleppingarnar sem ítrekaðar eru mun skaðlegri en stöku hrygning hjá eldisfiski,“ segir Jón Örn.

Í þessu samhengi bendir Jón Örn á opinberar tölur sem sýna að á árunum 1999 til 2007 var sleppt um 770 þúsund laxaseiðum árlega í veiðiár á Íslandi, eða um 50% meira en heildar náttúruleg seiðaframleiðsla íslenskra áa. „Í Elliðaárnar var sleppt yfir 180 þúsund eldisseiðum vegna fiskræktar á árabilinu 1998 til 2007. Á sama tímabili gengu um 190 þúsund náttúruleg laxaseiði til sjávar. Halda menn svo að þetta hafi ekki áhrif á genamengi laxins. Þessar sleppingar voru framkvæmdar í samræmi við ráðgjöf fiskifræðinga á Veiðimálastofnun sem annaðist einnig rekstur hafbeitarstöðvar í Kollafirði, í næsta nágrenni Elliðaáa. Þar var sleppt milljónum laxaseiða á yfir 30 ára tímabil. Þessi hafbeitarlax leitaði víða upp í ár og nægir þá að nefna Elliðaár og Laxá í Kjós.“

Norski laxinn

Aðspurður um þá staðreynd að norskur kynbættur eldislax er ræktaður í íslensku vistkerfi, en það hefur verið gagnrýnt af mörgum, segir Jón Örn að vissulega sé erfðamengi norska laxins frábrugðið því íslenska. „Hins vegar hefur eldislaxinn glatað hæfileikum sínum til að þrauka í villtri náttúru. Lífslíkur hans eru hverfandi litlar, enda leitar hann til hafs nema ef hann er kynþroska á þeim tíma sem hann sleppur. Slíkar uppákomur verða alltaf sjaldgæfar, því eftirlit og tækjabúnaður er orðinn það góður. Og takist eldislaxi í eitt skipti að hrygna eru erfðaáhrifin af því engin. Til þess að erfðamengi laxastofns í á breytist þarf endurtekna hrygningu í langan tíma. Því er hættan hverfandi.“

Þessu til viðbótar segir Jón Örn að laxeldi sé aðeins leyft á svæðum þar sem eru sárafáir náttúrulegir laxastofnar. Hér vísar Jón Örn til þess að í gildi er bann við laxeldi í sjó­kvíum á svæðum þar sem margar stórar laxveiðiár renna til sjávar.

Í Fréttablaðinu í gær varaði Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, við stórtæku eldi á Vestfjörðum og aðspurður um eldið sagði hann greinilega hættu til staðar. Það stjórnist af því hvað mikið af laxi sleppur og hversu lengi blöndunin stendur. Það skipti líka máli hversu fjarskyldur laxinn er, og því sé norski laxinn hættulegur.

Seiðasleppingar í Elliðaárnar óskylt mál
Leó Alexander Guðmundsson
Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur hjá Veiðimálastofnun og aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir gagnrýni hvað varðar seiðasleppingar í Elliðaárnar ekki eiga rétt á sér. Sleppingar í árnar hafi byggt á seiðum úr ánum sjálfum; fyrstu kynslóðar seiðum. „Það sem við erum að skoða eru áhrif eldislaxins sem gekk þarna inn í töluverðu magni. Það er alveg óskylt mál og á ekki að hafa áhrif á niðurstöður eða túlkun okkar.“

Hafbeitarlax gekk í árnar í miklu magni á árunum 1984 til 1999, en á þeim tíma fór veiddur lax úr ánum í 40% af eldislaxi á móti 60% af villtum laxi. Kvíaalinn lax gekk helst í árnar á tímabilinu 1987 til 1992 og allt að 24% veiddra laxa komu úr kvíum. „Hvort tveggja er eldislax; hafbeitarlax og kvíaalinn lax. Það voru kynbætur á hafbeitarfiski, og sannarlega var hafbeitarlaxinn líka eldisfiskur“, segir Leó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×