Innlent

Verkalýðsforingjar í hár saman vegna hvalaskoðunarfólks

Heimir Már Pétursson skrifar
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar Mynd / Völundur Jónsson
Framsýn stéttarfélag á Húsavík vísar á bug ásökunum Farmanna og fiskimannasambandsins og Félags vélstjóra og málmtæknimanna í tengslum við nýgerðan kjarasamning Framsýnar við starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja.

En í yfirlýsingu Farmannasambandsins og Félags vélstjóra á fimmtudag lýsa samtökin yfir undrun sinni á nýgerðum kjarasamningi Framsýnar á Húsavík vegna starfsmanna hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum á staðnum.

Fullyrða samtökin að við gerð þessa samnings hafi af hálfu Samtaka Atvinnulífsins ekki verið samið fyrir vélstjóra og skipstjórnarmenn.

Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar segir að þessi stéttarfélög ættu að einbeita sér að því að semja fyrir sína félagsmenn í stað þess að gagnrýna þá sem þó hafi samið.

„Þarna eru þeir með mjög alvarlegar aðdróttanir í okkar garð og saka okkur um að hafa ekki samið vel fyrir okkar fólk og við vísum því til föðurhúsanna,“ segir Aðalsteinn.

Starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja á landsvísu hafi verið án samninga og kallað eftir því að samningar yrðu gerðir og unnið hafi verið að þessum samningi Framsýnar í tvö ár. Það komi því úr hörðustu átt þegar félagar í verkalýðshreyfingunni gagnrýni þessa samninga.

„Já, það er mjög sérstakt. Það er ágætt símasamband á Íslandi og ég skil ekkert í þeim að hafa ekki hringt til mín og rætt þessi mál og fengið útskýringar á öllum þeim þáttum sem þeir eru að saka okkur um, sem er bara rugl. Þá hefðu þeir ekki þurft að verða sér til skammar með þessari yfirlýsingu,“ segir Aðalsteinn Baldursson.



Mynd/Gentle Giants



Fleiri fréttir

Sjá meira


×