Innlent

Vandi Íbúðarlánasjóðs verður ekki leystur á einu ári

Jóhannes Stefánsson skrifar
Í mánaðarlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að nýum útlánum heldur áfram að fækka og að fullnustueignir halda áfram að renna til sjóðsins. Fyrir vikið á Íbúðalánasjóður nú um 2.600 íbúðir, eða um 2% allra íbúða í landinu. Að sama skapi eru ný útlán sjóðsins einungis fjórðungur af því sem þau voru árið 2011.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur áhyggjur af ástandinu en telur þó að ekki megi missa sjónar af félagslegu hlutverki sjóðsins.

„Þetta er auðvitað áhyggjuefni og mér finnst mjög mikilvægt að þegar gripið verði til aðgerða vegna íbúðalánasjóðs þá verði það gert í pólitískri samvinnu og hugað að því félagslega hlutverki sem honum er ætlað að sinna í húsnæðismálum landsmanna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs tekur ekki undir þessar áhyggjur og segir Íbúðalánasjóð á áætlun með að leysa úr vanda sínum. Nýmæli í lánaframboði sjóðsins í haust, eins og óverðtryggð lán, muni hafa mikla þýðingu fyrir sjóðinn.

„Vandi Íbúðalánasjóðs fyrst og fremst er vandi sem verður ekki leystur á einu eða tveimur árum, þetta er vandi sem verður leystur á nokkrum árum sérstaklega þegar við horfum til fullnustueignasafns sjóðsins. Það sem að þarf að gera er að gera ákveðnar breytingar í áhættustýringu sjóðsins og það gerist núna í haust mjög stór áfangi í þeirri vinnu þegar við komum með nýtt lánaframboð. Síðan er auðvitað að losa okkur við fullnustueignir og koma út lausafé.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×