Innlent

Boðaðar breytingar á úthlutun aflaheimilda skýrt lögbrot

Skýrt lögbrot ef Sigurður Ingi (efri mynd) láti verða af hugmyndum sínum um breytingar á úthlutun aflaheimilda úthafsrækju að sögn Adolfs Guðmundssonar (neðri mynd)
Skýrt lögbrot ef Sigurður Ingi (efri mynd) láti verða af hugmyndum sínum um breytingar á úthlutun aflaheimilda úthafsrækju að sögn Adolfs Guðmundssonar (neðri mynd) Samsett mynd
Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ segir að ef sjávarútvegsráðherra láti verða að boðuðum breytingum á úthlutun aflaheimilda á úthafsrækju sé um skýrt lögbrot að ræða að hálfu ráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra boðaði á föstudag að lagt yrði fram frumvarp þar sem kveðið yrði á um að við úthlutun aflahlutdeilda, eða kvóta, í úthafsrækju myndu núverandi aflahlutdeildir vega 70 prósent en síðan yrði miðað við veiðireynslu síðustu þriggja undangenginna ára. Þá yrðu veiðarnar stjórnlausar á næsta fiskveiðiári sem hefst um mánaðamótin. Þetta þýðir að nýjum aðilum gefst tækifæri til að verða sér út um veiðireynslu.

Formaður LÍÚ segir að þessar hugmyndir séu skýrt brot á lögum um stjórn fiskveiða, en samkvæmt þeim beri ráðherra að úthluta aflamarki í úthafsrækju samkvæmt núgildandi lögum.

Adolf segir óásættanlegt ef sjávarútvegsráðherra ætli að brjóta lög um stjórn fiskveiða með þessum hætti og skorar á sjávarútvegsráðherra að endurskoða þessa afstöðu sína. Verði þessar hugmyndir að veruleika verði brotið gróflega á þeim sem eigi aflahlutdeild í úthafsrækju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×