Innlent

Telur Sjálfstæðismenn vilja spyrja þjóðina

„Ég er algjörlega ósammála orðum utanríkisráðherra. Það er alveg ljóst af hálfu forystu Sjálfstæðisflokksins að það eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið. Það er minn skilningur,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, spurð um þá skoðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra að ekkert sé í hendi um það hvort málið verði lagt í dóm þjóðarinnar að undangenginni úttekt á stöðu viðræðnanna og þróun sambandsins.

Á föstudag sagði Gunnar Bragi í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að ekkert stæði um það í stjórnar­sáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að það ætti að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í gær sagði hann jafnframt að hann sæi það ekki fyrir sér að kosið yrði um málið samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor. Þar ítrekaði hann umbúðalaust þá skoðun sína að ekki eigi að kjósa um áframhald aðildar­viðræðna.



Ragnheiður telur ofsagt að risið sé erfitt deilumál innan stjórnarinnar. Spurð um texta stjórnarsáttmálans þar sem vikið er að framhaldinu í Evrópumálum, og hvort hann sé óskýr, segir Ragnheiður ekki svo vera í sínum huga og bætir við að í aðdraganda kosninga hafi verið talað um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Í viðtölum við Fréttablaðið 24. apríl lýstu oddvitar ríkisstjórnarinnar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, yfir þessari skoðun. Þá sagði Bjarni að hluti af stefnu Sjálfstæðisflokksins væri „að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það“.

Á þeim tíma játuðu Bjarni og Sigmundur því báðir að það væri engin kjörstaða ef þjóðin samþykkti framhald ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu stjórn, ef það væri skoðun flokkanna beggja að Íslandi væri betur borgið utan sambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×