Innlent

3.200 manns skora á Vigdísi að segja af sér

Haraldur Guðmundsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Um 3.200 manns hafa nú skráð sig á undirskriftarlista þar sem skorað er á Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og formann fjárlaganefndar, að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd Alþingis og víkja úr hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar.

Undirskriftarsöfnunin, sem var hrint af stað þann 14. ágúst síðastliðinn, á rætur sínar að rekja til ummæla Vigdísar í viðtali í útvarpsþættinum Ísland í Bítið á Bylgjunni þar sem hún fór hörðum orðum um fréttastofu Ríkisútvarpsins og sagðist ósátt við vinnubrögð hennar vegna fréttar þar sem rangt var eftir henni haft. Þegar Vigdís var í útvarpsþættinum spurð hvort hún ætlaði að taka málið lengra benti hún á að hún ætti sæti í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar. Fjölmargir túlkuðu þessi ummæli hennar sem hótun um niðurskurð vegna ritstjórnarstefnu fréttastofu RÚV.

Vigdís svaraði fyrir ummælin í síðustu viku þar sem hún neitaði að hafa haft í hótunum um niðurskurð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×