Innlent

"Það bjargaði lífi sonar míns hvað flugvöllurinn var nálægt"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hátt í 22 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun þess efnis að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri en söfnun undirskrifta hófst á föstudaginn á lending.is. Tillaga að nýju aðalskipulagi gerir ráð fyrir að flugvöllurinn víki innan skamms.

Margir eru andvígir flutningi flugvallarins vegna öryggissjónarmiða. Vegalengdin frá Reykjavíkurflugvelli á Landspítalann er stutt og í sumum tilfellum getur slíkt bjargað mannslífum. Sonur Jóns Óðins Waage er dæmi um það. Hann fæddist árið 1997 með alvarlegan hjartagalla og var fluttur suður með sjúkraflugi. „Það lá svo mikið á að það þurfti að gera á honum bráðaaðgerð í andyri sjúkrahússins. Þetta var sem sagt orðið sekúnduspursmál. Hann var að deyja í andyrinu og það var ekki hægt að koma honum upp á efri hæðirnar,“ segir Jón.

Hann hefur fengið gríðarleg viðbrögð við færslu á Facebook þar sem hann sagði sögu sonar síns. Sumir saka hann um tilfinningaklám en aðrir eru á sömu skoðun og hann. „Ég hef fengið marga pósta frá fólki sem hefur sömu sögu að segja og ég.“

Jón segir aðeins mögulegt að byggja upp fyrsta flokks læknaþjónustu á einum stað á landinu. Hún eigi að vera í Reykjavík en tryggja þurfi aðgengi allra að henni. Hann segir rök þeirra sem vilji færa flugvöllinn alltaf þau sömu, að þyrlur muni sjá um sjúkraflugið. „Ef þær gera það er það fínt, ég hef ekki þekkingu á því. Ég hef hins vegar heyrt þyrluflugmenn segja að þetta gangi ekki upp og ég trúi þeim bara. Mér er alveg sama hvernig þetta verður gert en aðgengi að bestu læknisþjónustu landsins verður að vera til staðar fyrir alla landsmenn,“ segir Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×