Innlent

"Ég öskraði auðvitað eins og smákrakki"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eldri dóttir húsbóndans á heimilinu, Auður Ósk Hallmundsdóttir, fór út til að loka hænsnakofanum í gærkvöldi. „Ég sá ekkert nema fjaðrir úti um allt, þannig að ég gekk að kofanum og þá læddist að mér hundur á fjórumfótum, sýndi tennurnar og urraði á mig. Ég öskraði auðvitað eins og smákrakki,“ segir Auður.

Hundurinn slapp og hænurnar voru allar dauðar nema tvær. Önnur þeirra drapst í dag. Hænsnagarðurinn er vel afgirtur en líklega komst hundurinn í gegnum gat fyrir aftan hænsnakofann og síðan inn um litla lúgu. Aðkoman var mjög ljót. Systurnar segja fjárhagslegt tjón lítið en tilfinningatjónið meira. Þær gáfu föður sínum hænurnar í fimmtugsafmælisgjöf fyrir rúmum fimm árum síðan. „Hann hefur haft mikið gaman af þessu og við líka og barnabörnin og allir bara. Þetta er búið að vera algjört æði,“ segir Auður.

Auður segir hundinn hafa verið husky blöndu, lítinn og ljósan á lit en með rauðu ívafi. Auður og systir hennar, Steinunn Hallmundsdóttir, vonast til að eigandi hans finnist. „Mig langar bara að láta eigandann vita svo hann geti tekið ákvörðun um hvað hann vill gera. Hundurinn er búinn að stúta heilu hænsnabúi svo maður veit ekki hvað hann gerir næst," segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×