Innlent

Óttast að nýtt „2007-ástand“ sé að renna upp

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi." Þetta segir framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Hún óttast að nýtt „2007-tímabil" sé að renna upp með launaskriði í fjármálageiranum og misskiptingu.

Aðildafélög Starfsgreinasambandsins vinna nú að kröfugerðum fyrir gerð kjarasamninga í haust og vetur. Að því tilefni birti Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, pistil á vefsíðu sambandsins þar sem meðal annars er vakin athygli launaskriði þeirra hæstu launuðu og ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun ríkisforstjóra afturvirkt.

„Við erum að fá dæmi um launaskrið í fjármálageiranum og hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja. Það sem við viljum benda á er að kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi," segir Drífa.

Drífa segir þessa þróun mikið umhugsunarefni, þá sérstaklega þegar litið er til almenns starfólks. Hún segir að það verði ekki lagt á herðar þeirra sem eru með lægstu launin að axla ábyrgð á verðbólgunni á meðan misskipting vex.

„Launakröfur verkalýðshreyfingarinnar hafa verið hóflegar enda vitum við hvernig ástandið var eftir hrun. Það hefur verið ákveðin samstaða um það að allir axli sína ábyrgð en ef við erum að sjá ákveðna hópa hlaupast undan ábyrgð þá er sá grundvöllur brostinn, að tryggja það að verðbólga fari ekki úr böndunum."

Þannig bendir Drífa á að landið sigli hraðbyri í nýtt „2007-ástand." Hún ítrekar að lágmarkslaun á vinnumarkaði séu 204 þúsund krónur.

„Það er óvissa í spilunum. Við vitum ekki alveg hvað gerist með skuldaniðurfellingu gagnvart heimilum og fleira. Þannig að það er ýmislegt sem á eftir að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×