Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Valur 0-4 | Valur vann Reykjavíkurslaginn

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Laugardalsvelli skrifar
Mynd/Stefán
Valur sigraði Fram 4-0 í Reykjavíkurslag liðanna á Laugardalsvellinum í kvöld. Valur var 2-0 yfir í hálfleik og vann sanngjarnan sigur.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og má segja að vítið sem var dæmt og víti sem var ekki dæmt hafi skilið á milli í hálfleik.

Valur fékk víti í stöðunni 0-0 þegar boltinn hrökk í hönd Alan Lowing og Fram fékk ekki víti í stöðunni 2-0 þegar boltinn skoppaði greinilega í hönd Daniel Craig Racchi innan teigs.

Fram hóf seinni hálfleik af krafti og pressaði stíft án þess að skapa sér færi. Valur stóð pressuna af sér og tók öll völd á vellinum eftir um stundarfjórðungs leik.

Valur komst verðskuldað í 3-0 og bætti fjórða markinu við með síðustu spyrnu leiksins eftir að Jordan Halsman vinstri bakvörður Fram nældi sér í rautt spjald.

Valsmenn léku seinni hálfleikinn virkilega vel. Stjórnuðu ferðinni og lentu aldrei í vandræðum gegn Fram sem lék undanúrslitaleik í bikar fyrir þremur dögum og virkaði þreytt fyrir vikið.

Valur er nú komið með 23 stig í fimmta sæti deildarinnar en Fram er með 15 stig í sjöunda sæti.

Magnús: Tíu mörk í tveimur leikjum er frábært„Við komum af krafti í leikinn og ætluðum að vinna hér í dag. Við unnum sannfærandi sigur líka. Tíu mörk í tveimur leikjum er auðvitað frábært,“ sagði Magnús Gylfason þjálfari Vals eftir leikinn í kvöld.

„Við spiluðum ekki vel fyrstu 20 til 25 mínúturnar en það er kannski eðlileg skýring á því. Við áttum ekki leik í tíu daga og það var hlé um helgina. Við vorum lengi í gang en eftir það fannst mér við ekki gefa neina færi á okkur, spila góðan fótbolta og skora fjögur mörk.

„Við fórum vel yfir málin í síðasta leik þegar við fengum á okkur fjögur mörk en mér fannst varnarleikurinn þá ekki arfa slakur. Það voru föst leikatriði sem við vorum sofandi í. Varnarleikurinn var mjög góður í dag og við löguðum þessa hluti í vikunni. Við lokuðum vel á þá. Þeir eru með fljóta menn frammi og við vorum fljótari til baka heldur en ella. Heilt yfir gekk allt upp,“ sagði Magnús sem var mjög ánægður með nýju leikmenn liðsins, Svíann Lucas Ohlander og Danann Patrick Pedersen sem skoruðu báðir í leiknum.

„Ég var mjög sáttur við þá. Þetta er sterkir leikmenn og ég er gríðarlega ánægður með að fá þá inn í hópinn. Það hefur líka gefið hinum smá spark. Þeir hafa verið að skora mörk og leika góða leiki.

„Framlínan hefur verið að standa sig vel. Þar voru vankantar í leikjunum á undan. Heilt yfir erum við mjög sáttir við allt liðið í dag. Varnarlínan var líka mjög öflug,“ sagði Magnús Gylfason að lokum.

Ríkharður: Þrjár stórar ákvarðanir þeirra svart klæddu„Mér fannst fyrri hálfleikur í rauninni allt í lag. Við vorum tvö núll undir í hálfleik og það eru þrjár stórar ákvarðanir þeirra svart klæddu sem gerði það að verkum,“ sagði Ríkharður Daðason þjálfari Fram allt annað en sáttur við dómaratríóið í kvöld.

„Við ætluðum okkur að koma aftur inn í leikinn og höfðum orku í að elta eitthvað smá í byrjun. Við byrjuðum seinni hálfleik ágætlega í einhverjar tíu til tólf mínútur en svo fer þetta frá okkur og þriðja markið klárar leikinn.

„Okkur finnst harður dómur þegar sparkað er upp í hendi á manni sem er á fullri ferð af 30 sentímetrum. Svo held ég að allur völlurinn hafi séð þegar boltinn fer í höndina á manni sem stendur aleinn í teignum og enginn nálægt. Boltinn fór af grasinu og upp í höndina á honum sem stoppar boltann. Ég sá það frá hliðarlínunni og ég held að aðstoðardómarinn hljóti að hafa séð það frá hliðarlínunni þar sem hann stóð, það var enginn fyrir honum þar.

„Það hefði breytt stöðunni að fara með 2-1 undir í hálfleik og mér fannst vera brotið á okkur líka í aðdraganda annars marks þeirra þó það sé okkar eigin aulaskapur að gefa boltann frá okkur aftur eftir að við vinnum hann. Þetta gerir hlutina erfiða og ergir menn. Við vorum ekki ánægðir með þetta og höfðum ekki orku til að koma til baka í seinni hálfleik,“ sagði Ríkharður sem Fram lék undanúrslitaleik í bikar á sunnudag.

„Það er vinsælt núna að tala um að menn séu þreyttir en það er ekki ólíklegt. Valsmenn gerðu líka vel í að koma sér inn í leikinn, þeir fóru að halda boltanum betur og við þurftum að elta leikinn líka.

„Það er erfitt að koma til baka úr 2-0 stöðu og það eru utan að komandi aðstæður sem gera það að verkum að við erum 2-0 undir. Það er erfitt að fara með það á bakinu inn í hálfleik,“ sagði Ríkharður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×