Innlent

"Þetta kom mér mjög mikið á óvart"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tvær milljónir gesta hafa heimsótt Hörpuna frá því að húsið var opnað fyrir rúmum tveimur árum og náðist áfanginn þegar Sjöfn Friðriksdóttir mætti þangað seinni partinn í dag. Forstjóri Hörpunnar segir aðsókn að húsinu langt umfram væntingar.

Sjöfn var hálfbrugðið í dag þegar Halldór Guðmundsson, forstjóri og Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar, stöðvuðu hana við miðasöluna til að afhenda henni viðurkenningu og gjafakort á tónleika. „Þetta kom mér mjög mikið á óvart, rosalega mikið. Ég átti alls ekk von á þessu náttúrulega. Ég var bara að sækja miðana mína á draggkeppnina í kvöld,“ segir Sjöfn. Hún fór líka á dragkeppnina í Hörpunni á síðasta ári. „Svo kem ég oft hingað með vinkonum til að slappa af og spjalla.“

Talið hefur verið inn í Hörpuna síðan hún var opnuð um miðjan maí 2011 og hefur nánast milljón manna, eða rúmlega þrefaldur íbúafjöldi landsins, heimsótt hana á ári. Aðsókn erlendra ferðamanna hefur stóraukist og í sumar hafa fjögur til fimm þúsund ferðamenn komið í Hörpuna á hverjum degi. „Ég held að aðsókn að þessu húsi hafi verið langt umfram væntingar,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar.

Áætla má að um fjórðungur gesta sæki tónleika í húsinu og fjórðungur mæti á fundi, ráðstefnur eða í veislur. Um helmingur kemur því til að skoða húsið, taka myndir, sýna sig og sjá aðra. „Að ímynda sér þegar húsið var opnað að íslenska þjóðin væri búin að koma hingað sem svarar sjö sinnum rétt um það leyti sem tvö ár væru liðin, það hefði enginn gert ráð fyrir því,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×