Innlent

Unnið að úrbótum á matvælaöryggi á Íslandi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Verkefnið Örugg matvæli gerir Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd, sem þegar hafa verið innleiddar í gegnum EES samninginn.

Stuttur viðbragðstími er lykilatriði þegar matvælaöryggi er ógnað og vegna landfræðilegrar einangrunar Íslands er nauðsynlegt að rannsókna- og öryggisþjónusta sé til staðar. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís segir tilgang verkefnisins að bæta hana svo hægt verði að mæla óæskileg efni í matvælum sem ekki hafi verið hægt að gera að fullnustu hingað til og þjálfa starfsmenn í þessum mælingum. „Sömuleiðis gengur verkefnið út á að starfsfólk innan opinbera eftirlitsgeirans fái þjálfun til að geta sinnt skyldum sínum,“ segir Helga.

Verkefnið er knýjandi til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í matvælalöggjöf, en í dag er til dæmis ekki hægt að skima fyrir öllum efnum sem ætlast er til að mæld séu í grænmeti og ávöxtum. „Í dag getum við skimað fyrir 63 efnum en eftir að við fáum þann tækjabúnað sem nauðsynlegur er og þá þjálfun sem nauðsynleg er, getum við skimað fyrir 300 efnum, sem er það sem er reiknað með að við getum gert samkvæmt reglugerð,“ segir Helga.

Annað dæmi er að í dag er ekki hægt að mæla þörungaeitur í skelfiski eins og ætlast er til, en það verður mögulegt eftir að verkefninu lýkur á næsta ári.

Nýlega létust 22 börn á Indlandi vegna skordýraeiturs sem barst í mat þeirra. Strangar reglur gilda um efnaleifar í matvælum hérlendis og mörg efni sem áður voru notuð eru bönnuð, meðal annars það sem olli dauða barnanna. Helga segir ólíklegt að slíkt geti gerst hér. „Engu að síður er mikilvægt að fylgjast með og vita hvernig staðan er á matvælunum sem eru að koma til landsins,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×