Innlent

Læknadópið hækkað mest frá aldamótum

Taflan af Contalgini, sem flokkast sem morfín, hefur hækkað úr 1.000 krónum í 4.000 krónur frá árinu 2000.
Taflan af Contalgini, sem flokkast sem morfín, hefur hækkað úr 1.000 krónum í 4.000 krónur frá árinu 2000.
Lyf sem notuð eru til lækninga leika sífellt stærra hlutverk á vímuefnamarkaðnum hér á landi og hafa rítalín og morfín hækkað mest allra vímuefna á síðustu tólf árum. Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun SÁÁ.

Taflan af Contalgini, sem flokkast sem morfín, hefur hækkað úr 1.000 krónum í 4.000 krónur frá árinu 2000. Rítalín-taflan hefur hækkað úr 300 krónum í 1.000 til 1.500 krónur. Þá selst hylkið af Rítalín Uno, sem kom á markað árið 2012, á 2.500 krónur. Eitt gramm af marijúana kostaði 3.000 til 4.000 krónur í fyrra og e-pilla, eða MDMA, hefur kostað það sama hér á landi frá aldamótum eða 3.000 krónur.

Samkvæmt verðkönnuninni kostar eitt gramm af kókaíni 15 til 20 þúsund krónur og sami skammtur af amfetamíni 5.000 krónur.

„Upplýsingarnar um ólöglegu vímuefnaneysluna í Evrópu fyrir árið 2010 birtust nýlega í 2012 ársskýrslu Skrifstofu Evrópubandalagsins sem sér um að fylgjast með þróun ólöglegrar vímuefnaneyslu í bandalagslöndunum (European Monitoring Center for Drugs and Drug Addiction).

Þegar þessar upplýsingar eru skoðaðar kemur í ljós að verð og styrkleiki vímuefna sem gefin eru upp í skýrslunni virðist svo breytilegur milli landa og tengsl milli styrkleika og verðs svo óljós að erfitt er að túlka niðurstöðurnar og nota þær til samanburðar.

Virðist vandamálið þar vera það sama og hér heima að upplýsingarnar sem fást um kókaín, amfetamín og kannabisefni eru ónógar og vinna mætti miklu betur úr tölunum áður en þær eru birtar,“ segir á vefsíðu SÁÁ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×