Íslenski boltinn

Þarf meiri samkeppni í vörninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, segir íslenska landsliðið þurfa meiri samkeppni meðal varnarmanna um sæti í byrjunarliðinu.

Svíinn geðþekki valdi Jóhann Laxdal úr Stjörnunni og Kristinn Jónsson úr Breiðabliki voru valdir í hópinn fyrir æfingaleikinn gegn Færeyingum á miðvikudaginn. Jóhann er hægri bakvörður og en Kristinn spilar vinstra megin.

„Við þurfum fyrst og fremst varnarmann og sérstaklega bakverði," segir Lagerbäck um ákvörðunina að velja Jóhann og Kristinn í hópinn. „Þeir eru ungir og geta vonandi bætt sig enn frekar. Kannski eru þeir klárir að berjast um sæti í byrjunarliðinu."

Fyrir utan Jóhann og Kristinn er Hannes Þór Halldórsson eini leikmaðurinn í hópnum sem leikur með liði hér á landi. Að sögn Lagerbäck voru aðrir leikmenn íslenskra liða ekki nálægt því að komast í hópinn.

„Okkur finnst nokkrir leikmenn athyglisverðir en sama gildir um nokkra leikmenn erlendra liða."

Aron Einar Gunnarsson er ekki í leikmannahópi Íslands vegna axlarmeiðsla sinna. Þá er Birkir Már Sævarsson örlítið spurningamerki þar sem styttist í að kona hans eigi barn.

Lagerbäck opnaði fundinn á því að halda stutta tölu um Aron Jóhannsson og ákvörðun hans að velja bandaríska landsliðið fram yfir það íslenska.

„Við vorum í samskiptum við hann nánast allt frá því ég tók við landsliðinu. Mér fannst samskiptin góð og ég hvatti hann til að velja Ísland," segir Lagerbäck. Nú hafi Aron hins vegar valið Bandaríkin og lítið sé hægt að gera við því.

Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Wolves, hefur ekki gefið kost á sér í íslenska landsliðið í nokkurn tíma. Lagerbäck segist þó ekki hafa gefist upp á Skagamanninum.

„Ég ræddi nýlega við einn nákominn honum," segir Svíinn. Hann segist ætla að bíða og fylgjast með frammistöðu Björns hjá Wolves. Úlfarnir spila nú í C-deildinni á Englandi.

„Hinir fjórir eru á undan honum í röðinni í augnablikinu," sagði Lagerbäck. Á hann þar við Alfreð Finnbogason, Arnór Smárason, Eið Smára Guðjohnsen og Kolbein Sigþórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×