Íslenski boltinn

„Dómarinn er því miður ekkert betri”

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við vorum nokkuð góðir að mörgu leyti en það er erfitt að segja það eftir að hafa fengið á sig sex mörk og fara í burtu með ekki neitt," sagði Þorvaldur Örlygsson í viðtali eftir tap sinna manna gegn Val 6-4 í 13. umferð Pepsi-deildar karla í gærkvöldi.

Það þykir tíðindum sæta þegar lið skora fjögur mörk í einum leik en uppskera ekki einu sinni stig. Þorvaldur sagði mörk Valsmanna hafa verið ódýr.

„Það voru einstaklingsmistök sem við eigum að geta komið í veg fyrir. Þeir einstaklingar vita það vel og þarf ekkert að ræða," sagði Þorvaldur.

Þorvaldur, sem á sínum tíma var mikill baráttumaður á miðjunni og landsliðsmaður Íslands, segir Valsmenn komast upp með of harðan leik.

„Þetta er kraftmikið lið sem kemst upp með ansi mikið. Ekkert nýtt með það. Það hefur gert það í sumar og gerir það áfram. Maður biður dómarann um að vera skynsaman og sjá hlutinn. Hann var svo sem ekkert lélegur í dag, hann er bara því miður ekkert betri," sagði Þorvaldur um Guðmund Ársæl Guðmundsson, dómara leiksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×