Íslenski boltinn

„Við Halldór höfum ekki átt í neinum persónulegum samskiptum"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett
„Hann verður að fá að hafa sínar skoðanir og kemur þeim á framfæri með þeirri smekkvísi sem hann er alinn upp við og vanur," segir Jón Kaldal, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.

Halldór Hilmisson, fyrrum leikmaður Þróttar, skrifaði harðort bréf til stuðningsmanna félagsins í gærkvöldi. Þar gagnrýnir hann Jón fyrir starf hans sem formaður knattspyrnudeildar Þróttar og sparar ekki stóru orðin.

Halldór er einn leikmanna Þróttara sem yfirgaf félagið fyrr í mánuðinum í kjölfar þess að Páll Einarsson, þjálfari liðsins, var rekinn. Zoran Miljkovic var ráðinn í stað Páls. Fleiri leikmenn yfirgáfu Þrótt í kjölfar breytinganna.

„Ég held að ég geti fullyrt að það var ekki af einskærri tilfinningasemi við fyrrverandi þjálfara Þróttar sem einhverjir gengu frá borði í byrjun júlí þegar sá þjálfari var rekinn. Þó vissulega væri hægt að halda því fram að sá aðili sé einstaklingur sem eigi það virkilega skilið og meira en margir aðrir að honum sé sýndur stuðningur og virðing," skrifaði Halldór og segir hegðun Jóns Kaldals ástæðu brotthvarfs leikmanna.

„Ég held að ég geti fullyrt að það hafi komið til þessa fyrst og fremst vegna þess að mönnum hafi blöskrað framkoma og vinnubrögð til langs tíma, þessa eins manns egó-flipps betur þekktur sem stjórn knattspyrnudeildar."

Jón Kaldal segir í samtali við Vísi að óhjákvæmilega fylgi því eitthvert umrót þegar gerðar eru breytingar á kúltúr innan félagsins.

„Líta má á tilkomu Zorans Miljkovic og hans aðferðarfræði sem ákveðna menningarbyltingu innan Þróttar. Zoran er alveg á hinum endanum í starfsaðferðum við þann þjálfara sem var á undan (innsk: Páll Einarsson). Það veldur alltaf óróleika. Menn vilja alltaf gagnrýna breytingar og hafa rétt til þess."

Jón segir sig og stjórnarmenn horfa til árangurs sem næst á vellinum. Hann bendir á að liðið hafi fengið 9 stig af 15 möguleikum í fimm síðustu leikjum. Þar á undan hafi uppskeran verið 5 stig af 24 mögulegum.

„Maður hefði haldið að það myndi gleðja stuðningsmenn Þróttar að vinna tvo leiki í röð. En það virðist skipta suma, veit ekki hversu marga, meiru hvað gerist utan vallar."

Jón segir þá Halldór hafa átt í litlum persónulegum samskiptum. Þeir þekkist ekki persónulega.

„Við höfum ekki átt í neinum samskiptum utan þess að kasta kveðju hvor á annan á vallarsvæðum Þróttar," segir Jón. Mat Halldórs á sér byggi því ekki á eigin reynslu. Hann bendir á að Halldór hafi ekki haft samskipti við sig þegar hann ákvað að yfirgefa félagið. Þau samskipti hafi farið í gegnum aðra.

„Hann verður að fá að hafa sínar skoðanir og kemur þeim á framfæri með þeirri smekkvísi sem hann er alinn upp við og vanur."

Þórður Snær Júlíusson, stjórnarmaður í knattspyrnudeild Þróttar, svarar einnig bréfi Halldórs í dag. Fréttina má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×