Íslenski boltinn

Veigar Páll: Eyrað rifnaði í köku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Veigar Páll með bleiku umbúðirnar um höfuðið í Ólafsvík.
Veigar Páll með bleiku umbúðirnar um höfuðið í Ólafsvík. Mynd/Skjáskot
Framherji Stjörnumanna, Veigar Páll Gunnarsson, fór beint upp á spítala við komuna á höfuðborgarsvæðið eftir 1-1 jafnteflið gegn Víkingi í Ólafsvík á sunnudaginn.

Athygli vakti að Veigar Páll lék með bleikt band um hausinn stóran hluta leiksins eftir að hann meiddist á eyra.

„Ég lenti í einhverju skallaeinvígi við leikmann þeirra. Hann lendir svo ofan á mér, dregur höndina niður, ofan á eyrað á mér og festist í eyranu á mér," segir Veigar Páll sem fékk vænan skurð svo binda þurfti um höfuð hans.

„Efsti hlutinn á eyranu, þar sem það festir við hausinn, rifnaði í köku. Ég fór upp á spítala um leið og ég kom í bæinn. Læknarnir sögðu að skurðurinn væri svo flottur að þeir gætu límt hann saman," segir Veigar Páll.

Stjarnan tekur á móti KR í undanúrslitaleik Borgunarbikars karla annað kvöld. Framherjinn segist vera klár í slaginn en muni væntanlega spila með umbúðir um eyrað á morgun þótt óvíst sé hvort þær verði bleikar.

Mikill hiti var í mönnum í Ólafsvík og sakaði Garðar Jóhannsson, hinn framherji Stjörnunnar, leikmann heimaliðsins um að hafa hrækt á sig. Veigar þvertók hins vegar fyrir að um viljaverk hefði verið að ræða í hans tilfelli enda hefði þurft allsérstaka tækni til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×