Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - KR 3-1

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Stjörnumenn yfirspiluðu KR-inga og unnu sannfærandi 3-1 sigur á Samsung vellinum í kvöld. Heimamenn voru betri allt frá fyrstu mínútum leiksins og var sigurinn gríðarlega sannfærandi.

Liðin sátu í öðru og þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn, KR-ingar einu stigi frá toppnum en Stjörnumenn 3 stigum frá toppliði FH. Bæði liðin áttu þó tvo leiki til góða á Hafnfirðinga og gátu jafnað eða komist yfir FH-inga í tilviki KR-inga með sigri í kvöld.

Stjörnumenn komu mun sterkari inn í leikinn og höfðu undirtökin allan fyrri hálfleikinn. Það var verðskuldað þegar þeir tóku forystuna eftir 17 mínútna leik, Atli Jóhannsson átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn KR-inga þar sem Garðar Jóhannssom var mættur einn á auðum sjó og renndi boltanum framhjá Hannesi í marki KR.

Tæplega tíu mínútum síðar bættu Stjörnumenn við marki, Kennie Chopart labbaði framhjá Gunnari Þóri í vörn KR, renndi boltanum á Veigar Pál sem var einn gegn Hannesi og átti ekki í vandræðum með að klára það færi. Stjörnumenn fengu nokkur færi til að bæta við í fyrri hálfleik án árangurs en eina færi KR-inga fékk Baldur Sigurðsson eftir eitraða sendingu frá Gary Martin en hann skóflaði boltanum yfir frá markteig.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir heimamenn og var það fyllilega verðskuldað. KR-ingar mættu aðeins ákveðnari í seinni hálfleik en Stjörnumenn beittu gríðarlega hættulegum skyndisóknum og voru að fá hættulegri færi. Upp úr skyndisókn kom þriðja mark leiksins, Halldór Orri sendi langan bolta á Kennie Chopart sem lék á Grétar Sigfinn og lagði boltann framhjá Hannesi. Stjörnumenn fengu svo gullið tækifæri til að bæta við einu þegar þeir fengu vítaspyrnu á 88. mínútu en Halldór Orri skaut langt yfir.

Í uppbótartíma náði Baldur að minnka muninn, sending kom inn á fjærstöng og þar skallaði Kjartan Henry boltann aftur á Baldur sem skallaði boltann í fjærhornið. Þetta var hinsvegar of seint og náðu KR-ingar ekki að ógna meir og lauk leiknum því með 3-1 sigri Stjörnumanna.

Gríðarlega sterkur sigur hjá Stjörnumönnum sem jafna FH-inga á toppi deildarinnar ásamt því að eiga leik til góða. Þeir mættu tilbúnir í leikinn og voru óheppnir að bæta ekki við en sigur þeirra var fyllilega verðskuldaður. Þeir hafa nú ekki tapað síðan í fyrstu umferð Pepsi deildarinnar og unnið FH og KR í síðustu tveimur leikjum og er víst að þeir ætla sér að vera með í þessari toppbaráttu.

KR-ingar verða hinsvegar að rífa sig upp, eftir að hafa verið taplausir í sumar hafa komið þrír tapleikir í röð þótt einn hafi vissulega verið gegn sterku liði í Evrópukeppni. Þeir eru þó enn aðeins einu stigi frá toppnum og eiga leik til góða á FH en spilamennskan þarf að lagast ef miðað er við leik kvöldsins.

Logi: Erum að vinna bug á gömlum draugum„Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan vinnur KR í deildarkeppninni svo við erum auðvitað extra ánægðir með þetta,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Þeir pressuðu mikið á okkur í lok fyrri hálfleiks og breyttu um leikkerfi í seinni hálfleik sem gerir það að verkum að þeir voru mikið með boltann. Þeir náðu hinsvegar ekki að skapa sér nein færi á meðan við hefðum getað bætt við, sérstaklega úr vítaspyrnunni,“

Stjörnumenn hafa ekki tapað leik frá fyrstu umferð og unnið FH og KR í síðustu tveimur umferðum.

„Við erum ekkert í neinum skilaboðaleik, við viljum vinna leikina sem við förum í. Einu skilaboðin sem við viljum senda er að ef menn koma hingað þá þurfa þeir að hafa fyrir því að vinna okkur. Okkur hefur tekist að vinna þessa sigra saman og unnið bug á mörgum draugum sem hafa fylgt þessu liði, vera í toppbaráttu og halda hreinu m.a. og það gefur liðinu aukið sjálfstraust,“

Aðspurður hvort þetta hefði verið besti leikur Stjörnumanna í sumar vildi Logi ekkert gefa út.

„Ég er ekki viss, ég á eftir að skoða hina. Ég reyni að gleyma því sem búið er og gera betur í næsta leik,“ sagði Logi léttur í lokin.

Bjarni: Engin þreyta í hópnum„Það var töluvert sem vantaði uppá, sérstaklega baráttu og að vera þéttari í fyrri hálfleik og reyna að koma í veg fyrir þessi mörk sem við fáum á okkur,“ sagði Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR eftir leikinn.

„Við vissum hvað þeir myndu gera og við vissum hvað þeir myndu gera. Þeir eru orðnir mjög góðir, þéttir til baka og lokuðu vel á allt sem við reyndum að gera sóknarlega. Þeir eru svo með fljóta og sterka framherja sem myndar mjög sprækt lið,“

Aðspurður hvort þreyta hefði haft áhrif var Bjarni viss að svo var ekki þrátt fyrir erfiðan evrópuleik á fimmtudaginn.

„Nei, alls engin þreyta. Við spiluðum leikinn út og hlupum og börðumst alveg fram í lokin. Ef menn eru þreyttir eftir fjörutíu mínútur en ekki áttatíu er það ekki þreyta,“

Þetta var þriðji tapleikur KR-inga í röð eftir góða byrjun.

„Við erum ekkert farnir að örvænta neitt, þetta er einn af erfiðustu útivöllum landsins á teppinu sem er öðruvísi leikur. Við eigum hinsvegar að gera betur, núna fáum við smá frí. Við erum að fara út í erfiðan útileik sem verður upplifun fyrir okkur og ég geri ráð fyrir að þetta verði seinasti evrópuleikurinn í ár áður en við eigum annan erfiðan leik eftir viku,“

Með sigri Stjörnumanna er að myndast þéttur pakki á toppnum, aðeins þrjú stig skilja að liðin í efsta sæti og Blika sem eru í fjórða sæti.

„Þetta er gott fyrir áhorfendurna en við hefðum nú kosið að ná smá forskoti. Við erum hálfnaðir núna með mótið og staðan er ágæt fyrir okkur þótt það sé aldrei gaman að tapa tveimur leikjum í röð.“

„Við erum reynslunni ríkari frá því í fyrra og við ætlum ekki að enda í sama rugli og í fyrra. Við munum reyna að þétta okkur saman og gera betur í næstu leikjum,“

Þetta var fyrsti tapleikur KR gegn Stjörnunni í efstu deild karla.

„Síðustu ár höfum við náð jafntefli hérna, þeir hafa verið að jafna á lokamínútum leiksins en það var annað upp á teningunum í kvöld. Sem betur fer eigum við eftir að koma hérna aftur og spila við þá í bikarnum og þá verður annað lið sem kemur til leiks,“ sagði Bjarni.

Atli: Engin ástæða til að hætta núna„Þetta var mjög sanngjarnt ,við áttum þennan leik frá A-Ö. Við fengum langan tíma til að undirbúa þennan leik og við uppskárum eftir því,“ sagði Atli Jóhannsson, leikmaður Stjörnunnar eftir leikinn.

„Við unnum vel í okkar málum fyrir þennan leik. Þeir voru þreyttir í leiknum í kvöld eftir erfiðan leik á fimmtudaginn en Rúnar er búinn að vera duglegur að hvíla menn hjá þeim. Ef menn ætla sér að vera í Evrópukeppni er þreyta engin afsökun,“

Stjörnumenn fengu færi til að gera fyrr út um leikinn og eftir að þriðja markið kom klúðruðu Stjörnumenn víti.

„Við vorum þokkalega sáttir í stöðunni 2-0, þeir voru ekki að ógna neitt sérstaklega svo okkur leið bara vel. Það var algjör óþarfi að hleypa inn markinu þeirra í lokin, þeir fá tvö færi í leiknum svo þetta er fyllilega verðskuldað,“

Stjörnumenn eru nú taplausir frá fyrstu umferð og eru komnir með 26 stig, jafnir FH-ingum á toppnum ásamt því að eiga leik til góða.

„Við erum taplausir frá fyrri leik liðanna og við ætlum að reyna að halda því áfram. Það er rosalegur upppgangur í þessu, stemmingin eftir leiki er rosaleg og það er engin ástæða til að hætta núna,“ sagði Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×