Íslenski boltinn

Fór fokillur af velli og sparkaði í brúsa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gary Martin, framherji KR, var allt annað en sáttur þegar honum var skipt af velli í 3-1 tapi KR gegn Stjörnunni í Garðabæ á sunnudagskvöldið.

„Mér fannst hann ekki vera nægilega duglegur og ekki spila nógu vel. Sömu sögu er að segja um Atla (Sigurjónsson). Hann átti ekki sinn besta dag," sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir tapið.

Rúnar segir það koma fyrir bestu menn að eiga dapran leik inni á milli.

„Þá er það þjálfarans að reyna að sjá það. Ég mat það þannig hvort sem það var rétt eða rangt. Ég mat það þannig að breyta aðeins til," sagði Rúnar.

Greinilegt var að Martin var allt annað en sáttur við að vera skipt af velli. Hann strunsaði framhjá ungum liðsstjóra KR-liðsins og tók reiði sína út með því að sparka í vatnsbrúsa sem ætlaður var honum.

Martin var ekki í byrjunarliðinu í fyrri leik KR gegn Standard í forkeppni Evrópudeildarinnar síðastliðinn fimmtudag. Var Englendingurinn allt annað en sáttur við þá ákvörðun samkvæmt heimildum Vísis enda hafði hann séð Evrópuleikinn sem kærkomið tækifæri til að sanna sig fyrir erlendum útsendurum.

KR-ingar halda utan á morgun en liðið mætir Standard í síðari leik liðanna í Belgíu á fimmtudagskvöldið. Standar vann 3-1 sigur í fyrri leiknum. Leikurinn verður í beinni útvarpslýsingu á Útvarp KR fm 98,3. Hann verður sömuleiðis í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×