Innlent

Forsetafrú á íslenskum fáki í Berlín

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Dorrit Moussaieff, forsetafrú mun ríða í gegnum Brandenborgarhliðið í Berlín við setningu Heimsmeistaramóts íslenska hestsins, sem  hefst fjórða ágúst. Ólafur Ragnar verður hestasveinn.  

Um tvö þúsund Íslendingar hafa pantað sér miða á mótið en reiknað er með þrjátíu þúsund áhorfendum á mótið. Tíu tonn af íslensku heyi hafa verið flutt út til Berlínar fyrir hrossin, sem keppa á mótinu fyrir Íslands hönd.

„Dorrit verður þarna og mun ríða í gegnum Brandenborgarhliðið og það er mikill heiður fyrir okkur að hafa þau með. Ólafur kemur til með að styðja við hrossið og kemba því," segir Hafliði Halldórsson, landsliðsstjóri, sem er kátur fyrir mótið. 

Sveinn Ólason, dýralæknir íslenska landsliðsins fékk það hlutverk í dag að skoða landsliðshestana  áður en þeir halda af landi brott á sunnudagsmorgun með flugvél.  Landsliðið, sem heldur til Berlínar er feiknasterkt, 21 knapi og 21 hross en mótið stendur yfir frá fjórða til ellefta ágúst. Skoðunin fór fram í Grænhóli í Ölfusi.

Íslenskir hestar frá 15 löndum munu taka þátt í heimsmeistaramótinu. Íslendingar eiga þrjá heimsmeistara í liðinu, sem ætla að gera allt sem þeir geta til að verja titla sína. 10 tonn af íslensku heyi hefur verið sent út til Berlinar fyrir hrossin, auk fóðurbætis og vítamíndrykkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×