Innlent

Krefjast íbúakosningar um Landssímareit

Heimir Már Pétursson skrifar
BIN-hópurinn afhendir formanni borgarráðs áskorun um að setja Landssímareitinn í íbúakosningu.
BIN-hópurinn afhendir formanni borgarráðs áskorun um að setja Landssímareitinn í íbúakosningu. mynd/bin-hópurinn
Talskona BIN-hópsins segir að þótt borgarfulltrúar meirihlutans taki ekki undir athugasemdir hópsins varðandi skipulag við Austurvöll, sé hún bjartsýn á að efnt verði til íbúakosningar um skipulagið. Hópurinn leggst gegn hótelbyggingu í gamla Landsímahúsinu.

BIN-hópurinn afhenti Degi B. Eggertssyni formanni borgarráðs áskorun vegna deiliskipulagstillögu um Landssímareit áður en borgarráðsfundur hófst í ráðhúsinu í morgun. En BIN stendur fyrir „Björgum Ingólfstorgi og NASA“ og var hópurinn stofnaðir árið 2009 þegar til stóð að rífa NASA og færa hótel Vík og fleiri hús út á Ingólfstorg, en nú hefur verið fallið frá þeim áformum.

BIN hópurinn bendir á að nú hafi vel á þriðja hundrað athugasemdir borist vegna deiliskipulagstillögu Landssímareitsins, fjölmennur útifundur verið haldinn gegn tillögunni og 18 þúsund manns skrifað undir mótmæli gegn hótelrekstri á Landssímareitnum. Halla Bogadóttir talsmaður BIN-hópsins segir hópinn skora á borgarráð að fresta ákvörðun um samþykkt skipulagsins og málið verði tekið til umræðu í borgarstjórn þegar hún kemur saman í september.

„Og í öðru lagi óskuðum við eftir því að fram fari íbúakosning. Það er að segja að allir borgarbúar fái tækifæri til að lýsa skoðun sinni á þessari tillögu,“ segir Halla.

Hér sé um dýrmætasta reitinn í miðborginni að ræða. Versta tillagan sé að hafa hótel í Landsímahúsinu. Það þurfi að varðveita mannlífið í miðborginni en hótel verði aðeins utan við miðborgina. Því sé eðlilegt að borgarbúar fái að kjósa um tillöguna sem skipulagsráð hafi samþykkt og nú liggur fyrir borgarráði. Halla segir Dag B. Eggertsson ekki hafa tekið vel í hugmyndir hópsins við afhendingu áskorunarinnar í morgun.

„Hann var ekki jákvæður í okkar garð. Hann er okkur ósammála og flestir borgarfulltrúanna eru ósammála okkur. Einungis Sóley Tómasdóttir og aðrir fulltrúar Vinstri grænna hafa ljáð okkar málstað eyru,“ segir Halla. En er hún þá bjartsýn á að tillaga hópsins um íbúakosningu nái fram að ganga?

„Jú, ég ætla að vera bjartsýn. Ég ætla að trúa því að borgarfulltrúarnir okkar hlusti á raddir íbúa sinna og ætla því að vera bjartsýn,“ segir Halla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×