Íslenski boltinn

Albert samdi við Heerenveen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Albert Guðmundsson
Albert Guðmundsson Mynd/Heimasíða KR
Albert Guðmundsson, sextán ára leikmaður KR, hefur skrifað undir þriggja ára samning við hollenska úrvalsdeildarfélagið Heerenveen.

Albert hefur lengi verið í skoðun margra erlendra stórliða og hefur til að mynda æft bæði með unglingaliðum Arsenal og Liverpool. Hann ákvað þó á endanum að semja við Heerenveen.

Albert Finnbogason leikur með liðinu en nokkrir Íslendingar hafa verið á mála hjá Heerenveen í gegnum tíðina. Meðal þeirra má nefna Arnór Smárason, Ara Frey Skúlason, Björn Jónsson og Ingólf Sigurðsson.

Albert kemur af mikilli fótboltafjölskyldu en afi hans og alnafni, Albert Guðmundsson, varð fyrsti atvinnumaður Íslands á fimmta áratug síðustu aldar og lék til að mynda með Arsenal, AC Milan, Rangers og Nancy.

Sonur hans, Ingi Björn Albertsson, er næstmarkahæsti leikmaður efstu deildar karla frá upphafi. Dóttir hans og móðir Alberts, Kristbjörg, er fyrrum landsliðskona í knattspyrnu.

Faðir Alberts er Guðmundur Benediktsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, en hann varð Íslandsmeistari bæði með KR og Val.

„Albert kemur úr alvöru fótboltafjölskyldu. Hann er einn efnilegasti leikmaður Íslands í hans aldursflokki en Arsenal og Hoffenheim vildu bæði fá hann. Við erum mjög ánægður með að hann valdi Heerenveen,“ sagði Johan Hansma, yfirmaður tæknimála hjá Heerenveen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×