Íslenski boltinn

FH-ingar staðfesta áhuga Viking á Birni Daníel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Daníel í leik með FH.
Björn Daníel í leik með FH. Mynd/Daníel
Lúðvík Arnarson, varaformaður knattspyrnudeildar FH, staðfesti við norska fjölmiðla í dag að félagið hafi átt í viðærðum við norska úrvalsdeildarfélagið Viking vegna Björns Daníels Sverrissonar.

„Við töluðum við Viking síðast í gær og viðræðurnar ná nokkrar vikur aftur í tímann,“ sagði Lúðvík við Rogalands Avis í dag. „Ég vil ekki fara út í nein smáatriði en Viking virðist standa mjög fagmannlega að hlutunum og ég hef ekkert nema gott að segja um það.“

„Það er nokkuð líklegt að Björn Daníel muni fara til Noregs. Við skulum sjá til hvað gerist á næstu vikum.“

FH komst áfram í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu og mætir Austria Vín frá Austurríki. „Þetta hefur verið ævintýri fyrir okkur og ég er viss um að ef Björn Daníel fer á kostum gegn Austria munu stór evrópsk félög koma auga á hann.“

„Ég hef verið lengi í þessum bransa og Björn Daníel er mjög sérstakur leikmaður. Geta hans er mun meiri en gengur og gerist í íslensku deildinni. Ég á von á því að hann verði fastamaður í landsliðinu innan tveggja ára ef hann heldur áfram að bæta sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×