Innlent

Eigandi Landsímareits hótar málshöfðun gegn borginni

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Eigandi Landssímareitsins áskilur sér rétt til að höfða skaðabótamál á hendur Reykjavíkurborg vegna deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði í dag. Formaður borgarráðs segir borgina ekki hafa viðurkennt bótaskyldu í málinu.

Nýtt deiliskipulag fyrir Landssímareitinn við Austurvöll var samþykkt í borgarráði í morgun og það með all góðri sátt en sex af sjö greiddu atkvæði með skipulaginu. Málið er því að mestu komið úr höndum borgaryfirvalda og uppbygging á reitnum getur nú hafist. Skiptar skoðanir eru um þessar breytingar. Átján þúsund borgarbúar hafa mótmælt áformunum með undirskrift sinni og fjölmarar athugasemdir hafa borist frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum. Þá var þess krafist að íbúakosning myndi fara fram um málið.

„Þetta mál er tilvalið í íbúakosningu," segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna. „Þetta er mjög skýr og afmörkuð tillaga og hún varðar alla borgarbúa. Það í raun mjög einfalt fyrir fólk að kynna sér málið og taka afstöðu. Þar að auki hefði útfærsla slíkrar kosningar verið mjög einföld. Það er ekki mikill lýðræðisbragur á þessu."

„Íbúakosningin var rædd en það hefði verið nokkuð mikil skammsýni að fara þá leið. Vegna þess að ef við hefðum ekki samþykkt þetta skipulag í dag - sem hefur tekið mörg ár að vinna - þá hefði gamla skipulagið frá áttunda áratugnum haldið gildi sínu. Samkvæmt því mátti rífa öll gömlu húsin, þá voru byggingarnar hærri og byggingarmagnið meira," segir Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs.

Í þessu máli eru hagsmunirnir miklir og hér kemur vilji lóðahafa til kasta. Pétur Þór Sigurðsson, lögmaður, er eigandi Landsímareitsins. Pétur er umsvifamikill fasteignasali og á meðal annars gamla Landsímahúsið sem og húsnæði NASA. Nokkuð ljóst er að Pétri Þór hugnast ekki þær breytingar sem samþykktar voru í borgarráði í dag. Þær gera ráð fyrir 1.100 fermetra minnkun á fyrirhugaðri uppbyggingu á Landsímareitnum. Pétur Þór hótar málshöfðun gegn borginni vegna þessa.

„Við höfum ekki viðurkennt skaðabótarétt í málum sem þessum," segir Dagur. „Þvert á móti erum við að vinna að því að minnka byggingamagn, lækka húsin og fella þá byggð sem á að rísa að byggðinni sem fyrir er. Við erum að reyna að byggja nýtt með gömlu og vernda gömlu byggðina."

„Skipulag Landsímareitsins eru í raun ákveðið tímamóta skipulag í húsvernd. Þar á ekkert gamalt hús að víkja."

„Í þessu tilfelli sýnist mér að það muni hvort eð er koma til málshöfðunar," segir Sóley. „Þá velti ég því fyrir mér af hverju það var ekki farið í meiri sátt við borgarbúa, fyrst að við þurfum hvort eð er að fara fyrir dómstóla með málið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×