Íslenski boltinn

Víkingar kjöldregnir á Selfossi | Dramatík í Grindavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingólfur Þórarinsson skoraði gegn sínum gömlu félögum í Víkingi í kvöld.
Ingólfur Þórarinsson skoraði gegn sínum gömlu félögum í Víkingi í kvöld. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Selfoss vann 6-1 sigur á toppliði Víkings í 13. umferð 1. deild karla á heimavelli í kvöld. Grindavík og Haukar skildu jöfn 1-1 í toppslag.

Víkingar sáu aldrei til sólar á Selfossvelli í kvöld. Heimamenn skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum 3-0. Áfram hélt stórskotahríð Selfyssinga í síðari hálfleiknum og lokatölurnar hreint ótrúlegar, 6-1.

Ingólfur Þórarinsson, Javier Lacalle, Ingi Rafn Ingibergsson, Kristján Freyr Óðinsson og Svavar Berg Jóhannsson skoruðu mörk heimamanna. Mark Víkings skoraði Pape Mamadou Faye úr vítaspyrnu.

Dramatíkin var mikil í Grindavík þar sem markalaust var þar til komið var í uppbótartíma. Fyrirgjöf Juraj Grizelj snemma í viðbótartíma fór framhjá öllum pakkanum í vítateig gestanna og lak af stönginni og inn.

Flest benti í heimasigur Grindvíkinga sem hefði komið þeim í toppsætið en enn var tími fyrir gestina. Andri Steinn Birgisson skoraði stórkostlegt mark með skoti utan teigs á fjórðu mínútu viðbótartímans. Magnús Björgvinsson fékk tækifæri til að stela sigrinum fyrir Grindvíkinga sekúndum síðar en Sigmar Ingi Sigurðarson varði skot hans vel.

Víkingur er enn í toppsætinu með 25 þrátt fyrir niðurlæginguna á Selfossi. Grindavík er í öðru sæti með 24 stig og Haukar í því þriðja með 22 stig. Selfyssingar eru í 7. sæti með 17 stig. Önnur lið í deildinni eiga leik til góða.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×