Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Víkingur Ó. - Stjarnan 1-1

Kári Viðarsson skrifar
Mynd/Stefán
Stjörnumenn töpuðu dýrmætum stigum í toppbaráttu Pepsi-deildar karla í Ólafsvík í kvöld þegar Garðarbæjarliðið náði aðeins eitt stig á móti nýliðum Víkinga en liðin gerðu þá 1-1 jafntefli.

Stjarnan var búið að vinna þrjá leiki í röð fyrir leikinn og gat náð toppliði FH að stigum með sigri.

Stjörnumenn enduðu manni færri eftir að Hörður Árnason fékk beint rautt spjald á 85. mínútu fyrir glórulausa tæklingu.

Ólafsvíkur-Víkingar voru yfir í 57 mínútur í leiknum eftir að Alfreð Már Hjaltalín kom liðinu í 1-0 á 17. mínútu.

Garðar Jóhannsson skoraði jöfnunarmarkið á 74. mínútu með frábæru skoti eftir sendingu Kennie Knak Chopart. Garðar skoraði þarna í öðrum deildarleiknum í röð.

Víkingur Ólafsvík náði í stig gegn sterku liði Stjörnunnar í dag í miklum baráttuslag. Heimamenn komust yfir með marki Alfreðs Hjaltalín en Stjörnumenn jöfnuðu þegar Garðar Jóhannson smurði knettinum í samskeytin, algjörlega óverjandi fyrir Einar Hjörleifsson í marki heimamanna

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu ítrekað hættu við mark Ólafsvíkinga í byrjun leiks. Strax á þriðju mínútu björguðu heimamenn á línu eftir hornspyrnu og máttu prísa sig sæla að lenda ekki undir þá. Það tók Víkinga um 10 mínútur að komast almennilega inn í leikinn en þegar því takmarki var náð tóku þeir völdin á vellinum og Stjörnumenn virtust missa allan móð í sókninni. Það var svo á 17 mínútu að Alfreð Hjaltalín, besti maður Víkinga í dag, kom Víkingum yfir eftir klaufaskap í vörn Stjörnumanna. Daníel Laxdal var þá helst til værukær í öftustu víglínu, Alfreð slapp inn fyrir og kláraði færið af mikilli yfirvegun. 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Baráttan var allsráðandi í síðari hálfleik og Stjörnumenn virtust ekki alveg tilbúnir í hörkuna sem heimamenn buðu uppá. Hiti var í mönnum og tæklingar flugu á víxl. Leikmenn Víkings unnu flest návígin og voru sterkari aðilinn framan af. Fátt var þó um góð færi.

Daníel Laxdal tók þá til sinna ráða og geystist upp völlinn í átt að marki Víkinga. Hann sólaði mann og annan, kom knettinum á Kennie Chopart sem lagði boltann snyrtilega á Garðar Jóhannson. Garðar var ekkert að tvínóna við hlutina heldur tók boltann í fyrsta og klíndi honum eins og tyggjóklessu upp við samskeytin á marki Einars sem stóð gjörsamlega varnalaus í markinu. Algjörlega óverjandi og frábært mark hjá Garðari

Stjörnumenn hresstust við þetta og fengu tvö góð færi til að klára leikinn en allt kom fyrir ekki. Á 85. mínútu gerðist ljótt atvik þegar Hörður Árnason tæklaði Farid Zato aftanfrá. Algjörlega glórulaust hjá Herði sem komið hafði inná sem varamaður skömmu áður.

Bæði lið gerðu sitt besta til að vinna leikinn en þær tilraunir urðu allar að engu. Jafntefli sanngjörn niðurstaða í skemmtilegum leik í Ólafsvík í dag.

Logi Ólafsson: Við vorum slappir„Við mætum bara ekki nægilega vel stemmdir í þennan leik og eru virkilega slappir. Það er mitt mat," sagði Logi Ólafsson, vonsvikinn þjálfari Stjörnumanna, í leikslok.

„Við gerum þau mistök að fara inn í þann leik sem þeir vildu spila en við forðast, mikið um návígi og minna um spil og það var ekki það sem við lögðum upp með."

„Þrátt fyrir að vera að spila illa fáum við færi til að klára leikinn en náum ekki að nýta þau. Það kann bara aldrei góðri lukku að stýra að við höldum að mótherjinn sé eitthvað minni heldur en við," sagði Logi Ólafsson, sem var ekki sáttur við leik sinna manna í dag.



Ejub Purisevic: Við vorum betri„Mér fannst við spila mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Svo komu nokkrar mínútur eftir að þeir jafna þar sem við hefðum getað tapað þessum leik. Heilt yfir er ég mjög sáttur," sagði Ejub Purisevic eftir jafnteflið í dag

Aðspurður um áhrif nýju leikmannanna á liðið svaraði Ejub:

„Þeir eru góðir í fótbolta og koma inn með mikilvæga reynslu. Þeir eru flinkir og þora að taka boltann og spila honum. Þeir hafa smellpassað inn í liðið ég er ánægður með það."

Nokkur umdeild atriði áttu sér stað í leiknum en Ejub vildi ekki tjá sig um þau.

„Ef ég vil tjá mig um dómgæsluna þá tala ég bara við ákveðinn mann hjá KSÍ," sagði Ejub Purisevic, brosmildur þjálfari Víkinga í lok leiks.

Garðar Jó: Lélegir gegn lélegu liðunum„Þetta er alltaf saman sagan. Við erum góðir gegn góðu liðunum og lélegir gegn lélegu liðunum. Náðum aldrei upp almennilegu spili í þessum leik og vorum bara virkilega lélegir," sagði Garðar.

„Þeir voru örugglega ágætir en við vorum ömurlegir og jafntefli örugglega bara sanngjörn úrslit," sagði Garðar Jóhannsson, leikmaður Stjörnunnar, óhress í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×