Fótbolti

Hólmfríður: Kem alveg eldfrísk inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson í Vaxjö skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Hólmfríður Magnúsdóttir er ekki sátt með rúmenska dómarann sem gaf henni gult spjald rétt fyrir leikslok á móti Hollandi á miðvikudagskvöldið en það þýðir að hún verður í leikbanni í átta liða úrslitunum á móti Svíum.

„Þetta var frábær leikur en þetta er fljótt að breytast. Þetta var ótrúleg góð tilfinning að komast áfram en í leiðinni rosalega svekkjandi að fá þetta spjald. Ég get ekki lýst því hversu svekkjandi það er að vera búin að hlaupa úr sér lungun í þremur leikjum og fá síðan mjög ósanngjarnt gult spjald," segir Hólmfríður.

„Ég var aldrei búin að brjóta af mér í leiknum og þetta var varla aukaspyrna. Hún bendir í hina áttina til að byrja með. Ég veit ekki hvað ég á að segja um þetta því ég er svo tóm," segir Hólmfríður.

„Það er frábært að vera hluti af þessum hóp og það er eins gott að stelpurnar vinni næsta leik svo að ég komi alveg eldfrísk inn í undanúrslitin. Við vonum það," segir Hólmfríður brosandi.

En hvernig verður fyrir Hólmfríði sem hefur spilað allar 270 mínúturnar á mótinu að þurfa að fylgjast með Svíaleiknum úr stúkunni.

„Ég verð í kringum stelpurnar eins lengi og ég get. Ég veit ekki hversu lengi ég má vera með liðinu fram að leik. Ég mun styðja þær áfram. Þetta verður mjög erfitt því þetta er stærsti leikurinn sem við höfum spilað. Það er ólýsanlega svekkjandi að missa af þeim leik þegar maður er búin að spila í 90 mínútur í öllum leikjunum og spila vel," segir Hólmfríður.

„Að fá svona glatað gult spjald frá einhverjum rúmenskum dómara er ótrúlega svekkjandi. Ég var svo svekkt strax að ég nenti ekki einu sinni að horfa á hana. Ég vissi alveg hvað væri þá að fara að gerast og ég hefði ekkert grætt á því að segja eitthvað við hana. Svona er bara lífið," segir Hólmfríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×