Innlent

Júlíus Vífill vildi funda vegna Þorbjargar Helgu

Kristján Hjálmarsson skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, sem er lengst til vinstri á myndinni, vildi funda vegna viðtals við Þorbjörgu Helgu sem birtist í Nýju lífi í gær.
Júlíus Vífill Ingvarsson, sem er lengst til vinstri á myndinni, vildi funda vegna viðtals við Þorbjörgu Helgu sem birtist í Nýju lífi í gær.
Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, vildi funda með Sjálfstæðismönnum í borginni vegna viðtalsins við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa sem birtist í Nýju lífi í gær. Vegna sumarleyfa tókst hins vegar ekki að blása til fundar.

Samkvæmt heimildum Vísis sendi Júlíus Vífill tölvupóst í gærkvöldi á borgarfulltrúa, nefndarmenn, formann og varaformann Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, til að athuga  hvort þeir gætu hist í dag vegna umræðu um þeirra hóp, eins og segir í tölvupóstinum. Var þá sérstaklega vísað til fréttar Ríkisútvarpsins af málinu.

Vegna sumarfría var erfitt að boða til fundar en samkvæmt heimildum Vísis hitti Júlíus Vífill þrjá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins yfir kaffibolla í dag.

Viðtalið við Þorbjörgu Helgu í Nýju lífi vakti miklar og heitar umræður í gær. Brot úr viðtalinu birtist á Vísi í gær.

"Ólafur F. var veikur maður og það vissu allir. Allir borgarfulltrúar misnotuðu aðstæður hans en við í Sjálfstæðisflokknum gengum skrefinu lengra en hinir með því að bjóða honum borgarstjórastólinn," sagði Þorbjörg Helga meðal annars.

"Ég er enn miður mín og skammast mín fyrir að hafa tekið þátt í að gera Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra í Reykjavík. Þegar það gerðist vorum við borgarfulltrúarnir sárir eftir REI-málið. Í því máli tókum við sannfæringuna fram fyrir liðsheild og við töldum okkur vera að vinna þjóðþrifamál, með því að stöðva yfirvald sem ætlaði að keyra málin í gegn. Þess vegna þótt okkur gríðarlega ósanngjart að missa meirihlutann í kjölfarið."

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann sagði vera aðför að Ólafi F.

"Mér finnst þetta viðtal við Þorbjörgu dapurlegt og með hvaða hætti hún fjallar um Ólaf F. Magnússon, fyrir neðan allar hellur," sagði Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×