Innlent

Íbúðalánasjóði breytt í áhættusækinn útlánabanka

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Rannsókn á málefnum Íbúðalánasjóðs leiddi í ljós margvísleg mistök í rekstri sjóðsins, sum alvarleg sem kostað hafa þjóðina milljarða króna og í raun er ekki séð fyrir endann á þeim kostnaði.  Ein veigamesta og afrifaríkasta ákvörðunin sem gerð var á þessu tímabili var niðurlagning húsabréfakerfisins árið 2004 og sú ákvörðun að hækka hámarkslánsfjárhæð og veðhlutfall lána sjóðsins, en það hækkaði úr 65% í 90%.

Þetta var í raun pólitísk ákvörðun tekin af þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en Framsóknarflokkurinn hafði lofað 90% íbúðalánum í kosningum 2003 og gerði kröfu um efndir þessa kosningaloforðs í stjórnarmyndun.

Rannsóknarnefndin var sett á grundvelli þingsályktunartillögu frá Alþingi og var í tvö ár að rannsaka málefni Íbúðalánasjóðs frá síðustu aldarmótum og fram í lok árs 2012.

Húsbréfakerfið var lagt niður 1. júlí 2004 og íbúðabréfakerfið tekið upp. Skiptiútboðið sem ráðist var í í kjölfarið voru ein „verstu og afdrifaríkustu mistök sem Íbúðalánasjóður hefur gert, ef ekki þau allra verstu," að mati rannsóknarnefndarinnar.

Skiptin á húsbréfum í íbúðabréf í hinu nýja kerfi var framkvæmt á forsendum sem stóðust ekki og vanrækt var að gaumgæfa.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn hafði lofað 90% íbúðalánum í þingkosningunum 2003. Flokkurinn gerði kröfu um efndir þessa loforðs í ríkisstjórnarsamstarfi og gerðar voru kerfisbreytingar á ÍLS í kjölfarið.
Það sem er athyglisvert er að kerfisbreyting á Íbúðalánasjóði var gerð til að laða að erlent áhættufé til landsins til að lækka vexti. Þannig var húsbréfakerfið í raun lagt niður vegna eftirspurnar útlendinga.

Að hluta til var þetta vegna vaxtastigs en við útskiptinguna buðust betri vaxtakjör með íbúðabréfakakerfinu. Því samhliða var hins vegar aukin áhættusækni.

Ekki nauðsynlegt að breyta í íbúðakerfi

„Það var líka markmið að einfalda kerfið því það voru bæði húsnæðisbréf og húsbréf sem voru í eldra kerfinu. Það var áhugi að koma með ein bréf og samræma skuldabréfaútgáfu ríkisins annars vegar, sem voru óverðtryggð bréf og verðtryggða útgáfu Íbúðalánasjóðs. Þannig að það var áhugi á því að breyta og það var tekin sú stefna að breyta. Hvort það hefði verið hægt að vera áfram með húsbréfakerfið, svarið við því er, það hefði alveg verið hægt," sagði Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og einn nefndarmanna í rannsóknarnefndinni, þegar skýrslan var kynnt í dag.

Fram kom á fundinum þegar skýrslan var kynnt að innlendir fjárfestar, semsagt Íslendingar, hefðu hvatt til þess að ráðist yrði í kerfisbreytinguna. Í hnotskurn: meiriháttar breyting var gerð á íslensku húsbréfakerfi árið 2004 vegna þrýstings frá  fjárfestum, bæði innlendum og erlendum.

Krafa um lægri vexti kallaði á kerfisbreytingar

Hvers vegna skipti það máli að ráðst í grundvallar breytingar á íbúðalánastofnun, af því það eru einhverjir útlendingar sem hafa áhuga á því að kaupa fjármálaafurðir? „Það er vegna þess að á Íslandi hafa alltaf verið háir vextir og það var ákveðin hugsjón fólgin í þessu sem fólst í því að lækka vexti á íbúðalánum á Íslandi sem hefði getað orðið. Vegna þess að ef þú býður út mjög stóra skuldabréfaflokka á alþjóðlegum markaði þá eru vextirnir lægri heldur en ef þú ert að bjóða þá á Íslandi eingöngu,“ segir Kirstín Þ. Flygenring, hagfræðingur og nefndarmaður í rannsóknarnefndinni.

Vandinn við hátt vaxtastig á Íslandi er svo aftur nátengdur íslensku krónunni.

Það voru fleiri alvarlegar misfellur í rekstri ÍLS. Á árunum 2004-2008 komu ítrekað fram athugasemdir frá bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD, virtum alþjóðastofnunum, um alvarlega meinbaugi á rekstri sjóðsins. Alls var um að ræða 21 úttekt samtals.

Meðal þess sem bent á var hversu óeðlilegt það væri að Íbúðalánasjóður væri að keppa við bankana um lánveitingar á markaði. Á þessar athugasemdir var aldrei hlustað.

„Við eigum þessar athugasemdir skjalfestar og það var ekki brugðist við. Þið sjáið það bara á því sem var gert," segir Kristín.

Og rökin fyrir því voru? „Við Íslendingar vildum bara hafa þetta svona. Íslendingar vildu hafa þetta eftir sínu höfði."

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn hafði lofað 90% íbúðalánum í þingkosningunum 2003. Flokkurinn gerði kröfu um efndir þessa loforðs í ríkisstjórnarsamstarfi og gerðar voru kerfisbreytingar á ÍLS í kjölfarið.


Tengdar fréttir

Starfsmenn ÍLS skildu ekki áhættustýringu

Starfsmönnum Íbúðalánasjóðs skorti þekkingu til að vinna með þær áhættustýringaraðferðir sem komið var á laggirnar fyrir sjóðinn, segir í niðurstöðukafla kolsvartrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×