Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, í 1.deild karla í knattspyrnu vandaði ekki dómaranum kveðjurnar eftir leik Víkings og Hauka sem lauk 2-2 fyrr í dag.
Víkingur komst í 2-0 í leiknum en með tveimur mörkum undir lok leiksins náðu Haukar að jafna metin.
,,Það sjá það allir sem voru á vellinum að dómgæslan í leiknum var ekki hátt skrifuð. Þriðja leikinn í röð sem við lendum í þvílíkri dómgæslu. Ef ég myndi tala hreint út um það hvað mér finnst um þessa dómgæslu þá fengi ég líklega leikbann frá KSÍ," sagði Ólafur Þórðarson í samtalið við fotbolti.net eftir leikinn í dag.
,,Þetta gengur ekki lengur. Við erum gjörsamlega lagðir í einelti af dómarastéttinni. Þeir virðast allir ætla að hefna fyrir það sem gerðist á Leiknisvelli þegar einhver stjórnarmaður hjá Víking missir eitthvað útúr sér og þá á það að bitna á liðinu í næstu tíu umferðum. Þetta gengur ekki upp. KSÍ verður að fara skoða þessi mál hjá sér," sagði Ólafur.
Heimir Gunnlaugsson, varaformaður Víkings, lét ófögur orð falla út í dómara eftir leik Víkings og Leikni um daginn en baðst síðan afsökunar daginn eftir. Ólafur Þórðarson telur að verið sé að leggja sitt lið í einelti eftir þessi frægu ummæli.

