Fótbolti

Zlatan kvartaði undan hálfíslenskum markverði Færeyinga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan öskrar hér á Gunnar Nielsen, markvörð Færeyinga, í kvöld.
Zlatan öskrar hér á Gunnar Nielsen, markvörð Færeyinga, í kvöld. Nordic Photos / AFP

Zlatan Ibrahimovic skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Svía á Færeyingum í undankeppni HM 2014 í kvöld.

Leikmenn lentu í stimpingum í kvöld og Andreas Granqvist fékk rautt eftir viðskipti sín við Fróða Benjamínsen sem lék með Fram hér á landi fyrir níu árum síðan.

Gunnar Nielsen stóð í marki Færeyinga en hann á íslenska móður. Hann lenti í útistöðum við sóknarmanninn Zlatan í leiknum.

Síðara mark leiksins kom úr vítaspyrnu sem var dæmt á Jónas Þór Næs, leikmann Vals. Zlatan skoraði af öryggi og öskraði í átt að Gunnari.

„Já, þetta var gegn markverðinum. Ég veit ekki hver hann er en hann á að hafa sig hægan,“ sagði Zlatan við sænska fjölmiðla eftir leikinn.

„Ég hef aldrei leikið gegn liði sem vælir jafn mikið og þeir gerðu í kvöld,“ bætti hann við. „Þeir eru án stiga í riðlinum og væla sig í gegnum allan leikinn. Þeir ættu frekar að einbeita sér að því að spila og hlaupa - kannski myndu þeir ná inn einu stigi.“

Zlatan hefði getað fengið rautt spjald þegar hann kastaði boltanum í andlit Gunnars.

„Auðvitað átti þeta að vera rautt spjald. Þetta var virðingarleysi hjá honum. Hann er frábær leikmaður en lítur greinilega of stórt á sig,“ er haft eftir Gunnari í sænskum miðlum.

„Hann spilaði ekki vel. Hann var latur og vildi ekki vera þarna,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×