Innlent

"Þetta er alls ekki sanngjarn samanburður"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Það er ekki sami hluturinn náttúrulegur sykur eða hvítur, unninn sykur.
Það er ekki sami hluturinn náttúrulegur sykur eða hvítur, unninn sykur. Mynd/Gyða Ölvisdóttir
Mynd sem sýnir sykurmagn ýmissa drykkjarvara hefur farið sem eldur í sinu um netið. Næringarfræðingurinn Steinar B. Aðalbjörnsson segir samanburðinn villandi.

„Eins og ég held að þessi mynd hafi verið sett upp þá hafa verið settið sykurmolar við vöruna sem eiga að sýna magnið af sykri í henni. Það er rangt að gera það svona og slíkur samanburður er villandi. Það er vegna þess að í sumum vörum er sykurinn náttúrulega til kominn, eins og til dæmis í öllum mjólkurvörum sem náttúrulegur mjólkursykur og hreinum ávaxtasöfum. Það þekkist þó auðvitað alveg að í sumum þessara drykkja er mikill viðbættur sykur. Það verður hins vegar að bera þessi matvæli saman undir réttum formerkjum."

Steinar segir talsverðan mun á sykri sem komi fyrir náttúrulega og öðrum, hvítum viðbættum sykri. „Þessi náttúrulegi sykur í hóflegu magni hefur ekki sömu skaðlegu áhrifin á hjarta og æðakerfið eins og venjulegur hvítur unninn sykur, eins og er til dæmis í kók. Ávaxtasykurinn hefur ekki sömu bólgumyndandi áhrif og jafn mikið magn af hvítum sykri. Það er að segja, ávaxtasykur hefur ekki þessi skaðlegu áhrif ef að magnið er hóflegt."

Steinar segir allan sykur hafa sömu skaðlegu áhrifin í miklu magni. „Sykur er reyndar bara þannig að það er eiginlega sama hvaðan sykurinn kemur, í of miklu magni hefur hann slæm áhrif á hjarta og æðakerfi. Hann veldur bólgum í hjarta og æðakerfi sem leiða líklega til þess að fólk fái einhverskonar hjarta- og æðasjúkdóma eins og þrengingar í æðar og svo framvegis."

Allur sykur hitaeiningaríkur

Steinar bætir svo við um ávaxtasykur: „Óhófleg neysla á ávaxtasykri, hvaða sem hún kemur, leggur mikið álag á lifrina. Lifrin getur orðið fitug og hætt að starfa eðlilega. Þú getur þannig fengið lifur sem er ekkert ósvipuð því sem þekkist hjá alkóhólistum."

Hann bendir einnig á að allur sykur er eins að því leyti að hann er hitaeiningaríkur og það þarf að hafa í huga, hvort sem hann er náttúrulegur eða ekki. „Ef þú drekkur of mikið af sykurríkum vörum þá skiptir engu máli hvort þetta er hvítur sykur eða ávaxtasykur. Þá ertu einfaldlega að fá of mikið. Þetta er vont upp á hitaeiningarnar að gera og það er erfiðara að halda sér í réttu holdarfari."

Steinar segir neyslu ávaxta nánast undantekningalaust í lagi. „Það er hinsvegar akkurat ekkert að því að neyta ávaxta nánast í hvaða magni sem er. Í ávöxtunum eru líka trefjar sem að minnka áhrif sem ávaxtasykurinn hefur á blóðsykurinn. Þá ertu líka að fá önnur næringarefni með eins og prótein, önnur flóknari kolvetni, vítamín og steinefni. Það er fullt af vörum í náttúrunni sem eru hollar og sykurríkar en verum ekki að bæta við viðbótarsykri, það er algjör óþarfi," segir Steinar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×