Innlent

Nokkrir verið handteknir - hafa tengsl við vélhjólaklúbb

Hrund Þórsdóttir skrifar

Nokkrir hafa verið handteknir vegna árásar sem gerð var á mann á sjötugsaldri á heimili hans í Grafarvogi í gær. Árásarmennirnir bundu manninn og héldu honum nauðugum á meðan þeir stálu skotvopnum af heimili hans. Mennirnir hafa tengsl við vélhjólaklúbb.

Það var upp úr klukkan ellefu í gærmorgun sem tveir menn ruddust inn í íbúðina, sem er á þriðju hæð í blokk við Barðastaði í Grafarvogi. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að maðurinn, sem er á sjötugsaldri, hafi verið einn heima þegar árásin var gerð.

„Þeir tjóðruðu, eða kefluðu, húsráðanda og fóru síðan í framhaldinu af því og tóku átta skotvopn sem hann hafði löglega í sínum fórum í þartilgerðum byssuskáp og tóku auk þess skotfæri. Þetta voru rifflar, haglabyssur og gömul kindabyssa," segir Árni Þór.

Árásarmennirnir athöfnuðu sig í um hálfa klukkustund áður en þeir héldu á brott. Þriðji maðurinn beið þeirra fyrir utan og þegar þeir keyrðu af vettvangi sáu vitni af hvaða tegund bíll þeirra var.

Mennirnir bundu húsráðanda á höndum og fótum og ógnuðu honum með hnífi, en þegar þeir voru farnir gat hann gert vart við sig hjá nágranna sínum. Þar fékk hann hjálp og hringt var á lögreglu.

Manninum var mjög brugðið eftir atburðinn og farið var með hann á slysadeild til skoðunar og aðhlynningar, en meiðsli hans eru ekki alvarleg.

„Það voru litlar upplýsingar á að byggja í upphafi en það fór í gang umfangsmikil rannsókn. Við kölluðum til aukamannskap og fengum aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra," segir Árni Þór.

Mikill þungi var settur í rannsóknina og leiddi umfangsmikil vinna lögreglu til þess að aðilar voru handteknir, en ekki fæst uppgefið hversu margir eru í haldi.

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var síðan gerð húsleit í Hafnarfirði og fundust stolnu skotvopin þar, vandlega falin. Árásarmennirnir hafa tengsl við vélhjólaklúbb sem er talinn tengjast skipulögðum glæpasamtökum og er málið litið mjög alvarlegum augum.

Ekki er hægt að segja til um hvort það tengist uppgjöri í undirheimunum sem átt hefur sér stað undanfarið, en unnið verður áfram að rannsókn í dag.


Tengdar fréttir

Eldri manni haldið nauðugum á heimili sínu

Ráðist var inn á heimili eldri manns í Grafarvogi í dag og honum haldið þar nauðugum. Rannsókn málsins er á frumstigi en allt tiltækt lið lögreglu vann að lausn þess í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×