Fótbolti

Bandaríkin sigruðu Þýskaland í miklum markaleik

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bandarískt fagn
Bandarískt fagn MYND/NORDIC PHOTOS/GETTY

Bandaríkin sigruðu vængbrotið lið Þýskalands 4-3 í vináttulandsleik í Bandaríkjunum í dag. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Bandaríkin en fimm mörk voru skoruð í seinni hálfleik.

Josmer Altidore kom Bandaríkjunum yfir með glæsilegu marki á 13. mínútu. Graham Zusi átti frábæra fyrirgjöf frá hægri sem Altidore afgreiddi viðstöðulaust í netið.

Annað mark Bandaríkjanna sem skorað var þremur mínútum síðar var vægast sagt slysalegt. Benedikt Höwedes sendi til baka á Marc-Andre ter Stegen sem rétt rak fótinn í boltann sem þaðan fór í netið.

Heiko Westermann minnkaði muninn strax á sjöundu mínútu seinni hálfleiks en nær komst Þýskaland ekki.

Átta mínútum síðar var munurinn aftur kominn í tvö mörk. Bandaríkinn sóttu hratt. Altidore sendi fyrir þar sem Clint Dempsey kom og hamraði boltann í netið, óverjandi fyrir Stegen.

Clint Dempsey var aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar með glæsilegu skoti rétt  utan vítateigs með vinstri fæti. Stegen reyndi hvað hann gat að verja en skotið var of gott og staðan orðin 4-1.

Annar varamaður Þýskalands lagaði stöðuna fyrir liðið þegar Max Kruse skoraði glæsilegt mark á 79. mínútu. Tveimur mínútum minnkaði Julian Draxler muninn í eitt mark.

Góður sigur Bandaríkjanna þó það hafi vantað fjölda leikmanna í þýska liðið. Þar á meðal alla landsliðsmenn Bayern Munchen og þýska atvinnumenn á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×