Íslenski boltinn

Arftaki Þorvalds kynntur eftir hádegi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán

Ríkharður Daðason fylgdist grannt með gangi mála þegar Fram lagði Val að velli 2-1 í Borgunarbikar karla síðastliðinn fimmtudag.

Þorvaldur Örlygsson sagði upp störfum hjá Fram í gærkvöldi eftir tæp sex ár í starfi. Brynjar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Fram, sagði í samtali við Vísi í gær að reynt yrði að ganga frá ráðningu á nýjum þjálfara í dag.

Ríkharður var í stúkunni á Hlíðarenda og fylgdist með Frömurum. Sat kappinn útaf fyrir sig og virtist skrifa hjá sér punkta. Þá var Ríkharður einnig á meðal áhorfenda á viðureign FH og Keflavíkur kvöldið áður en Fram mætir Keflavík í 6. umferð Pepsi-deildar karla.

Brynjar Jóhannsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar hjá Fram sagði í samtali við Vísi í dag að menn væru að lesa of mikið í nærveru Ríkharðs á umræddum leikjum. Félagið hefði ekki hafið viðræður við neina þjálfara á þeim tímapunkti. Hann var þó ekki tilbúinn að slá nafn Ríkharðs útaf borðinu.

„Ekkert frekar en annarra," sagði Brynjar. Hann sagðist reikna með því að geta tilkynnt um eftirmann Þorvalds upp úr hádegi.

Ríkharður mætti á æfingar hjá Fram sumarið 2011 og aðstoðaði við þjálfun framherja liðsins. Þá var Ríkharður að vinna í þjálfunargráðu sinni. Hann er Framari í húð og hár, var Íslandsmeistari með liðinu 1990 og gegndi formennsku hjá hlutafélaginu Fram fótboltafélagi Reykjavíkur á sínum tíma.

Ríharður var einmitt formaður þess þegar Þorvaldur var ráðinn sem þjálfari liðsins haustið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×