Íslenski boltinn

Þetta eru þrjótar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Siggi Dúlla við störf með karlalandsliðinu.
Siggi Dúlla við störf með karlalandsliðinu. Mynd/Silfurskeiðin.is

Stjörnumenn fussuðu og sveiuðu þegar Sigurður Sveinn Þórðarson, betur þekktur sem Siggi Dúlla, dró FH upp úr skálinni á bikardrættinum í dag.

Leikur Stjörnunnar og FH er ein þriggja viðureigna úrvalsdeildarliða í sextán liða úrslitum keppninnar.

Sigurður, sem er liðsstjóri Stjörnunnar auk þess að gegna starfi búningastjóra hjá íslenska karlalandsliðinu, hristi hausinn þegar blaðamaður spurði hann út í viðbrögð félaga hans.

Greinilegt var á viðbrögðum þeirra að þeim þótti ljóst að Sigurður myndi ekki reynast heppinn í drættinum.

„Menn bjuggust sennilega við þessu. Að mótherjinn yrði erfiður," sagði Sigurður um viðbrögð félaga sinna. Aðrir fulltrúar Stjörnunnar voru Almarr Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar, Logi Ólafsson, þjálfari liðsins, og Jóhann Laxdal, leikmaður liðsins.

Aðspurður hvort Stjörnumenn hefðu reiknað með ógæfu frá Sigurði eftir að hafa rýnt í söguna sagði Sigurður:

„Ef þeir hefðu rýnt í söguna hefðu þeir komist að öðru. Þeir lentu bara gegn 1. eða 2. deildarliðum í fyrra fyrir utan Fram," sagði Sigurður. Á honum var að merkja að Stjörnustrákarnir mættu vera sáttir við þá andstæðinga sem Sigurður hefði dregið fyrir þá til þessa.

„Þetta eru þrjótar," grínaðist Sigurður og nýtti tækifærið til að benda á einfalda staðreynd:

„Þeir þurfa að klára FH til að verða bikarmeistarar."

Leikurinn fer fram í Garðabænum 19. eða 20. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×