Íslenski boltinn

Tækifæri til hefnda gegn KR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Knattspyrnudómarinn Gunnar Jarl Jónsson hendir sér fyrir skot Viktors Bjarka Arnarssonar.
Knattspyrnudómarinn Gunnar Jarl Jónsson hendir sér fyrir skot Viktors Bjarka Arnarssonar. Mynd/Daníel

Bikarmeistarar KR sækja Leikni heim í Breiðholtið í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu.

Liðin mættust á Leiknisvelli sumarið 2005 og þá vann KR 6-0 sigur. Freyr Alexanderson, annar þjálfara Leiknis, spilaði með Breiðhyltingum og var áminntur í leiknum. Bjarki Bergmann Gunnlaugsson skoraði þrennu fyrir KR.

Öllu eftirminnilegri leikur fyrir Breiðhyltinga er viðureign KB, Knattspyrnufélags Breiðholts, og KR í bikarnum sumarið 2008. KB og Leiknir eru mikil vinafélag en hinn þjálfari Leiknis í dag, Davíð Snorri Jónasson, spilaði einmitt með KB fyrir fimm árum.

„Það var klárt víti," segir Davíð Snorri þegar hann er beðinn um að rifja upp umdeilt atvik undir lok leiksins. KR vann 1-0 sigur í leiknum en meira að segja hörðustu KR-ingar töldu sig sleppa vel þegar Magnús B. Björgvinsson dómari dæmdi ekki brot á KR-inga innan teigs undir lokin.

Björgólfur Takefusa skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu.Mynd/Stefán

„Það var brotið á Sigga Kr. (Nikulássyni)," segir Davíð sem man vel eftir leiknum. „Það var gaman að fara á KR-völlinn og leikurinn er líklega sá stærsti hjá mörgum þeirra Breiðhyltinga sem spiluðu leikinn."

Aðspurður hvort ekki sé kærkomið tilefni til hefnda þegar stóri bróðir, Leiknir, tekur á móti KR eftir tvær vikur segir Davíð:

„Ég veit það nú ekki. Við skulum sjá til." Hann segir þó alltaf möguleika í bikar þótt KR sé klárlega líklegra liðið.

„Það er frábært að fá þá heim í Breiðholtið," segir Davíð Snorri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×