Innlent

Bó vill jarðsyngja Hemma í beinni

Jakob Bjarnar skrifar
Björgvin Halldórsson gerir að tillögu sinni að jarðarförin fari fram að Hlíðarenda.
Björgvin Halldórsson gerir að tillögu sinni að jarðarförin fari fram að Hlíðarenda.

Björgvin Halldórsson söngvari gerir það að tillögu sinni að útför Hermanns Gunnarssonar - Hemma Gunn - verði í beinni útsendingu og fari fram frá Valsvellinum.

"Það eru örugglega margir sem vilja fylgja honum. Við vorum að tala um það vinirnir í morgun, og mér fyndist vera við hæfi, þó ég sé ekki að plana neitt, að svo þjóðin fái að votta honum virðingu sína verði jarðarförin í beinni útsendingu og á Valsvellinum, þar sem hann átti heima, Vodafone-höllinni, svo allir geti tekið höndum saman og vottað þessum góða dreng virðingu sína."

Björgvin nefndi þennan möguleika í Íslandi í dag, í gær, þar sem fjallað var ítarlega um Hemma Gunn og rætt var við fjölda vina hans. Hemmi varð bráðkvaddur á Tælandi á þriðjudag og má segja að í gær hafi ríkt þjóðarsorg á Íslandi. Sennilega komast færri nær því að mega segja ástmögur þjóðarinnar en Hemma Gunn.

Tillaga Björgvins er ekki úr lausu lofti gripin; Hemma var margt til lista lagt en frægastur var hann líklega fyrir sjónvarpsþætti sína, Á tali hjá Hemma Gunn, sem voru einmitt alltaf í beinni útsendingu, var beinlínis lagt uppúr því. Og svo vinamargur var Hemmi að þegar hann var fimmtugur bauð hann allri þjóðinni til afmælisveislu á skemmtistaðnum Hótel Íslandi.

Freyr Einarsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, tekur þessari hugmynd vel: "Ef nánustu aðstandendur Hemma telja þetta ráð þá erum við á Stöð 2 meira en opin fyrir því að sýna frá jarðarförinni; í beinni útsendingu í opinni dagskrá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×