Fótbolti

Eiður Smári: Vorum ekki nægilega þéttir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eiður Smári
Eiður Smári Mynd / Getty Images

„Það gefur augaleið, þetta voru gríðarleg vonbrigði. Alveg sama í hvaða leik þú ert þá er slakt að fá á sig fjögur mörk, hvað þá á heimavelli," sagði Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður íslenska landsliðsins eftir leikinn.

„Mér fannst ekkert vanta upp á kraft eða vilja, sérstaklega fram á við. Þegar við sóttum vorum við oft á tíðum hættulegir, sérstaklega í seinni hálfleik þegar við fáum nokkur færi til að jafna leikinn."

„Þegar þú færð þessi færi verðuru að nýta þau, sérstaklega þegar þú ert að elta leikinn. Annars ertu alltaf opinn fyrir skyndisóknum eins og kom á daginn í fjórða marki Slóvena,"

Eiði Smára fannst ekki mikill munur á hvernig Slóvenarnir spiluðu í kvöld og í síðasta leik liðanna í mars.

„Mér fannst það ekki, mér fannst mesti munurinn á okkur. Við vorum ekki nægilega þéttir, ég er ekki að kenna varnarlínunni um það heldur okkur sem slíkum. Við vorum að skilja of mikið af svæðum eftir milli línanna,"

„Það þýðir ekkert að hengja haus, við verðum að reyna að sýna karakter og koma til baka og sýna karakter í næsta leik. Vissulega hefði verið sætt að fá eitthvað úr þessum leik en við vissum að þetta yrði erfiður leikur," sagði Eiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×