Enski boltinn

Næstum því fullkominn endir á ferlinum hjá Carragher

Jón Júlíus Karlsson skrifar

Enski varnarmaðurinn Jamie Carragher lék í gær sinn síðasta leik á ferlinum þegar hann og félagar hans í Liverpool höfðu betur gegn Queens Park Rangers, 1-0, í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Carragher lék alls 737 leiki fyrir Liverpool en þessi 35 ára leikmaður fékk frábær viðtökur frá stuðningsmönnum Liverpool í leiknum. Hann var einnig sáttur með að enda ferilinn á sigri.

„Þetta var mjög tilfinningaþrunginn dagur, sérstaklega fyrir fjölskyldu mína og vini sem hafa fylgst með mér úr stúkunni í öll þessi ár,“ segir Carragher. „Klúbburinn er mjög góðum höndum. Við tókum fínan lokasprett í deildinni og vonandi eflir það okkur fyrir næsta tímabil. Ég vil þakka öllum stuðningsmönnum fyrir stuðninginn. Þetta var leikur sem við vildum vinna.“

Litlu munaði að Carragher hefði lokið ferli sínu með eitt af mörkum tímabilsins. Carragher átti þrumuskot af löngu færi sem small með látum í stönginni. Carragher segist varla trúa því að boltinn hafi ekki farið inn.

„Ég trúi því ekki að boltinn hafi ekki farið í markið. Ég skoraði mark í mínum fyrsta leik fyrir 16 árum og það hefði verið fullkominn endir að ljúka ferlinum með marki,“ sagði Carragher sem skoraði fjögur mörk í ensku úrvalsdeildinni á þeim 17 árum sem hann lék í deildinni.

Jamie Carragher ásamt dóttur sinni á Anfield í gær.Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×