Samkvæmt upplýsingum Vísis ber lögreglu að rannsaka öll mál þar sem að grunur leikur á að dýr hafi verið beitt ofbeldi. Eins og greint var frá fyrr í dag fannst köttur sjö ára gamallar telpu á hafnarsvæðinu í Bolungarvík þar sem hann virtist hafa verið skotinn til dauða.
Kötturinn hafði þá verið týndur í þrjá daga, en grunnskólabörn komu að kettinum í fjörunni og þekktu hann.
Börnin sáu mann í fjörunni sem var að veiða mink, en hann fullyrðir að hafa ekki skotið köttinn. Reimar Vilmundarson, faðir telpunnar, segir á vef BB.is að það leiðinlegasta í þessu máli sé að það hafi ekki einhver viðurkennt að hafa gert þetta í ógáti. „Það sem maður horfir helst á er að sá sem gerði þetta gæti beðið hana afsökunar,“ segir hann.
Málið hafði ekki komið upp á borð lögreglunnar á Vestfjörðum þegar Vísir hafði samband.