Innlent

Kærustu meðlims vélhjólagengis dæmdar bætur

Hells angels á Íslandi. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Hells angels á Íslandi. Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Kærustu meðlims í vélhjólagengi voru dæmdar 250 þúsund krónur í miskabætur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna ólögmætrar frelsissviptingar við húsleit á heimili hennar.

Konan kom að heimili sínu í mars á síðasta ári en þá voru þar fyrir lögreglumenn sem voru að leita á heimili hennar. Þeir höfðu heimild til þess en í dómi segir að ástæðan hafi verið rannsókn lögreglu á fjölda alvarlegra ofbeldisbrota þar sem viðriðnir væru meðlimir svokallaðra vélhjóla­gengja en maðurinn hefur áður verið tengdur vélhjólagenginu Fáfni, og síðar Vítisenglunum.

Rökstuddur grunur hafi legið fyrir um að meðlimir þessara klúbba hygðu á enn frekari ofbeldisverk sem hefðu verið að fullu skipulögð.

Brýnt hafi verið talið að framkvæma leit á heimilum og dvalarstöðum þessara einstaklinga til þess að koma höndum yfir gögn, tæki og tól sem tengdust slíkum fyrirætlunum og hefðu verið ætluð til nota við framkvæmd þeirra. Meðal þess sem fundust við húsleitina heima hjá konunni, voru skotfæri sem voru í eigu kærastans.

Konan brást illa við húsleit lögreglu og varð það til þess að hún var handjárnuð í tæpa klukkustund á meðan húsleitin fór fram.

Í niðurstöðu dómsins segir að konan hefði að ósekju verið svipt frelsi sínu og því fallist á að greiða konunni bætur, en hún fór upprunalega fram á að fá 600 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×